,,Það má segja að aflinn hafi verið með skárra móti frá því í byjun júlí. Við höfum verið með 25 til 35 tonn af rækju í hverri veiðiferð og mest höfum við verið í kantinum frá Skagafjarðardjúpi og austur úr. Við erum ánægðir með veiðarfærin og sú þróun, sem hófst á innfjarðarækjuveiðunum, með T90 fjögurra byrða DynIce kvikklínupokann fyrir um fjórum árum, það hefur svo sannarlega skilað sér, umhverfis og gæðalega séð í stórbættum árangri á úthafsrækjuveiðunum,” þetta segir Guðbjartur Jónsson, skipstjóri á togaranum Klakki ÍS 903, en skipið var fyrst gert út frá Vestmannaeyjum og síðar frá Grundarfirði. Nú er Klakkur kominn til Ísafjarðar og er eitt fjögurra skipa sem stundar úthafsrækjuveiðar þar.
Þriðja togvindan frá Naust Marine var sett í Klakk sl. vetur og gerir það Guðbjarti og hans mönnun kleift að toga með tveimur rækjutrollum samtímis.
Við erum með tvö ný 2200 möskva Pandalus rækjutroll, sem Hermann H. Guðmundsson hjá Hampiðjunni á Akureyri hannaði.
Nafnið á trollinu, Pandalus, er dregið af latneska heiti kaldsjávarrækjunnar sem er Pandalus Borealis.
Trollin eru með 30 metra löngum gröndurum og fimm tonna miðlóði. Það eru notaðir 9,5 m2 Injector hlerar til að skvera trollin og með þeim fæst 120 til 125 metra breidd milli hleranna. Höfuðlínuhæð á trollunum er að meðaltali um 7,5 metrar. Guðbjartur segir að skipið ráði vel við trollin á allt að 2,4 mílna toghraða og þau væru svipað þung í drætti og eitt botnfisktroll áður.
Reglugerð um úthafsrækuveiðar breyttist þannig í vor að þá var útgerðum gert skylt að nota þvernetspoka T90 í stað hefðbundinna síðupoka sem notaðir hafa verið um langt árabil.
,,Við höfum góða reynslu af T90 pokunum frá Hampiðjunni á Ísafirði á innfjarðarækjuveiðunum og þessi poki með DynIce kvikklínunum hefur ekki reynst síðri á úthafsrækjuveiðunum. Það tók smá tíma fyrir okkur að ná tökum á meðferð pokans en eftir það hefur allt gengið upp. Það er þó sá munur á að togað er lengur í úthafinu en innfjarðar og því er meiri útskilnaður á rækju eftir því sem togtíminn lengist.
Við þurfum að gæta þess að stilla kvikklínurnar þannig að ekki fari of mikið út af nýtanlegri rækju. Það er mjög auðvelt, fljótlegt og þægilegt að vinna með kvikklínurnar í alla staði. Þær auka sveigjanleikann og hjálpa okkur að sleppa smárækjunni og halda hlutfalli nýtanlegrar rækju í hámarki. Það getur skipt sköpum varðandi aflaverðmætið. Það er aðeins 15 stykkja munur innan hvers verðflokks og smæsta rækjan er svo að segja verðlaus,” segir Guðbjartur en hann telur að nýi pokinn muni skila enn betri árangri þegar líður á haustið.
Þá verður byrjað að toga á svæði þar sem megi eiga von á smærri rækju. Hægt verði að stilla pokann þannig að útskilnaður verði þannig að hlutfallslega verði aflinn innan þeirra marka sem kveðið er á um.
,,Við megum líka vera með leggpoka en gallinn við hann er sá að það festist of mikið af rækjunni í leggnetinu í hífingu. Hún skemmist við það og er því ekki nýtanleg,” segir Guðbjartur Jónsson.