Skip to main content

Dótturfyrirtæki Hampiðjunnar, Voot ehf., hefur á undanförnum árum vaxið og dafnað eftir kaup Hampiðjunnar á 68% hlut í fyrirtækinu árið 2017.

Voot hefur byggt upp sterka markaðsstöðu í útgerðar- og rekstrarvörum ásamt því að þróa sjóvinnufatalínuna MarWear og því sem fyrirtækið var upphaflega stofnað til – að útvega beitu til línuveiðiskipa.

Hampiðjan Ísland, sem er dótturfyrirtæki Hampiðjunnar og sinnir íslenska markaðinum með veiðarfæri og rekstrarvörur, hefur einnig sinnt sölu á rekstrarvörum og ýmsum vörum fyrir útgerð og undanfarin ár í mjög nánu samsstarfi við Voot.

Samstarfið hefur verið svo náið að á þessum tímapunkti er skynsamlegt að leggja þessa tvo rekstrarhluta saman til að ná fram frekari hagkvæmni og Voot, áfram undir styrkri stjórn Vignis Óskarssonar, að einbeita starfsemi Voot að beitu og aukaafurðum í sjávarútvegi.

Með tilfærslunni styrkir Hampiðjan Ísland markaðsstöðu sína með því að bjóða upp á fjölbreyttara vöruúrval undir einu merki og auka þannig þjónustu við verktaka og viðskiptavini í sjávarútvegi, landbúnaði, matvælaiðnaði og öðrum atvinnugreinum. Gert er ráð fyrir að þessi ráðstöfun muni einnig bæta rekstrarhagkvæmni og draga úr kostnaði.

Sameiningin gerir það kleift að nýta verslunarrými fyrirtækjanna betur. Hampiðjan Ísland hefur rekið verslun í höfuðstöðvum sínum í Skarfagörðum, í Vestmannaeyjum, Ísafirði og á Neskaupstað en Voot hefur haldið úti verslunum á Akureyri og í Ólafsvík. Verslanirnar á Akureyri og í Ólafsvík munu halda áfram að þjónusta nærumhverfi sitt og bjóða upp á sérhæfða vöru og þjónustu, þar á meðal efnavöru og vera umboðs- og dreifingaraðili fyrir Olís á Snæfellsnesi.

Bæði fyrirtækin hafa verið með starfsemi sína og vöruhús í höfuðstöðvum Hampiðjunnar við Skarfabakka í Sundahöfn, þannig að breytingin hefur ekki áhrif á þjónustu eða dreifingu til viðskiptavina.

Með sameiningunni stefnir Hampiðjan Ísland að því að styrkja verslanirnar um land allt og bjóða upp á fjölbreyttara vöru- og þjónustuframboð og tryggja viðskiptavinum sínum aðgang að hágæða búnaði sem er sérsniðinn að þörfum þeirra.