Það er víða um lönd sem Íslendingar koma að sjávarútvegsmálum. Nú síðast heyrðum við af fjórum Íslendingum sem eru yfirmenn á verksmiðjutogaranum Gloria, einum af þremur verksmiðjuskipum Omanska útgerðarfélasins Al Wusta Fisheries Industries.
Skipstjórar á skipinu eru Ásgeir Gíslason og Hafsteinn Stefánsson. Síðustu vikur hefur togarinn verið útbúinn með sérstaka stórfiskaskilju, sem sett var upp hjá Hampiðjunni, og segir annar skipstjóranna, Ásgeir Gíslason, að hún virki eins og hugur manns.
Gloria, sem smíðuð var í Póllandi 1989, er rétt rúmir 95 metrar á lengd og tæplega 16 metrar á breidd. Í áhöfn eru 68 manns. Skipið var áður við hrossamakríl veiðar við Vestur-Afríku, undan ströndum Marokkó og Máritaníu, en nú er það á makríl og hrossamakríl veiðum í Arabíuhafi undan ströndum Ómans.
Skipið er á veiðum með flottrolli en á þessum slóðum hefur aukaafli á borð við stærri fiska eins og tunglfiska, valdið áhöfninni vandræðum við veiðarnar.
Við þessu var brugðist með því að fá Vernharð Hafliðason veiðarfærameistara hjá Hampiðjunni til að hanna og setja upp sérstaka stórfiskaskilju í trollin að beiðni Hauks Inga Jónssonar, trollmeistara í veiðarfærum á skipinu. Hefur skiljan skilið út stórfiskategundir með mjög góðum árangri.
,,Það ber að þakka það sem vel er gert. Skiljan smellpassar á flottrollstromluna og hún virkar eins og hugur manns. Um meira er ekki hægt að biðja,” segir Ásgeir Gíslason en hann segir að aukaaflinn nú sé aðallega tunglfiskur.
Hrossamakríll og makríll, sem nú er verið að veiða, svipar til þess sem veiddur er í Atlantshafinu. Honum er dælt beint um borð úr pokanum frá skut til fullvinnslu. Með þessu móti er hámarks ferskleiki hráefnisins tryggður. Umhverfisáhrif skiljunnar skila sér afar vel til lífríkisins með því að skilja lifandi stórfisk út úr veiðarfærinu aftur til uppvaxtar í framtíðinni.
Í bréfi til útgerðarinnar um gagnsemi stórfiskaskiljunnar um borð í Gloria gefur Ásgeir henni sína bestu einkunn. Ekki verður betur séð en að skiljan leysi að öllu leyti þau vandamál sem aukaaflinn hefur haft í för með sér.