Skip to main content

Á hverju sumri nú í þrjú ár hafa starfsmenn Hampiðjunnar og fjölskyldur þeirra tekið einn dag til að hreinsa strendur landsins ásamt umhverfissamtökunum Bláa hernum.   Blái herinn undir forystu Tómasar Knútssonar hefur unnið mikið brautryðjandastarf á þessu sviði og við hjá Hampiðjunni erum stoltir styrktaraðilar þeirra samtaka með myndarlegum fjárframlögum og beinni þátttöku í hreinsunarstarfinu.


Áður höfum við hreinsað í nágrenni Herdísarvíkur og austan Selvogsvita en um síðustu helgi tókum við fyrir Krossavík sem er yst á Reykjanesskaga stutt frá Reykjanesvita og Gunnuhver.  Okkur til aðstoðar kom liðsauki frá alþjóðlegu sjálfboðaliðasamtökunum Seeds og var mjög ánægjulegt að kynnast þeirra góða starfi að umhverfismálum á Íslandi.   Veðrið var fyrirtak, frekar léttskýað, hægur vindur og um 12 stiga hiti og því afar heppilegt veður til svona vinnu.


Krossavíkin er um 600 m löng og afmarkast af klettarönum sem ná út í sjó.  Á milli þeirra er stórgrýtt fjara og nokkuð hár fjörukambur sem skýlir sléttlendi á bak við sem hallar síðan upp inn til landsins.   Þessi fjara hefur greinilega ekki verið hreinsuð áður og því af nógu að taka.  Alltaf er forvitnilegt að sjá hvað rekur á fjörurnar og í þessari vík er mikið af rekaviði sem ekki hefur verið hirtur í fjöldamörg ár.   Þar sem viðurinn er náttúrulegt efni sem brotnar niður með tímanum þá er hann látinn eiga sig og tíminn notaður í að hreinsa burt allt annað sem borist hefur upp á ströndina.

Við erum ágætlega að okkur í sögu veiðarfæra hér á Íslandi og þekkjum allt það sem snýr að veiðarfærum og hvaðan þau koma og því forvitnilegt að sjá hvað leynist í fjörunum.   Það kom á óvart hversu lítið var af nýlegum veiðarfæraúrgangi og það eina sem taldist nýlegt var rifrildi af trollpoka, nokkrir uppblásnir netabelgir og trollkúlur.   Þetta sýnir vel hversu sjómenn eru passasamir í dag og það sem lendir í sjónum og rekur burt er vegna skaða á veiðarfærunum en ekki hent vísvitandi.   Töluvert var um gamlar kaðlaslitrur og sérstaka athygli vakti fjöldi lítilla kork- og plastflota sem oftast eru kallaðir kleinuhringir og voru notaðir fyrir 3-4 áratugum á síldarreknet.  Einnig var töluvert af netahringum af þorskanetum en þeir voru notaðir fram á byrjun níunda áratugsins eftir að flottógið hóf innreið sína um 1976 og var væntanlega búið að taka yfir markaðinn um 1985.   Annað sem fannst var ótengt veiðarfærum og þar mátti sjá alls konar brúsa og brotna kassa, skó og þvíumlíkt.


Á nokkrum klukkutímum tókst hópnum að hreinsa Krossavíkina fullkomlega og fylla allar kerrur og þurfti að fara aukaferð til að ná í það sem eftir var.  Væntanlega var afraksturinn um 1,5-2 tonn.  Vinnudeginum lauk síðan í Grindavík en þar nutum við góðra veitinga á veitingastaðnum Hjá Höllu.