,,Þetta tæki er algjör snilld. Það gekk allt eins og í sögu og það sem kom mér mest á óvart er hve skamman tíma verkið tók.”
Þetta segir Friðleifur Einarsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK, en tækið sem hann vísar til er nýr færanlegur vírastrekkivagn Hampiðjunnar sem nota á til að strekkja togvíra inn á tromlur togspila.
Friðleifur segir að fyrir tíma strekkitækjanna hafi eina leiðin verið sú að slaka trollunum í sjó, þar sem var nógu djúpt, og toga svo með allt úti til að strekkja á vírunum.
Undanfarið ár hefur Hampiðjan byggt upp fastar undirstöður fyrir vírastrekkitæki í Reykjavík, Vestmannaeyjum, Akureyri og í Neskaupstað. Full þörf var fyrir slík tæki til að fá jafna og rétta vírastrekkingu inn á togspilin. Þá er vírinn tekinn beint um borð í skipin með skutinn upp að hafnarbakkanum og í gegnum víratrekkitækin sem sett eru á fasta undirstöðu á bakkanum.
Það er besta aðferðin við vírastrekkinguna og hefur komið afskaplega vel út fyrir áhafnir og útgerðir viðkomandi skipa. Það er þó þannig að ekki hentar alltaf að sigla á þessa staði til að fá víra strekkta og því hefur einnig verið útbúinn sérstakur vírastrekkivagn sem hægt er að fara með á þá staði þar sem ekki er fastur vírastrekkibúnaður. Til að reyna nýja útbúnaðinn var strekktur vír á Helgu Maríu sem lá með stjórnborðshliðina upp að Skarfabakkanum í Sundahöfn. Vírastrekkivagninn var staðsettur aftan við og skáhallt við skutinn.
Nýi togvírinn sem tekinn var um borð og strekktur með vírastrekkivagninum er 32 mm. Vírinn leynir á sér hvað varðar þyngd því hver rúlla er hvorki meira né minna en níu tonn. Það þarf því öflugan kranabíl til að koma keflunum fyrir á vírastrekkivagni Hampiðjunnar. Alls fóru 2.013 metrar (1.100 faðmar) af togvír inn á hvora vindu í tilviki Helgu Maríu.
Jón Oddur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hampiðjan Ísland, er ánægður með nýja vírastrekkivagninn.
,,Með þessu móti er nú mögulegt að fara með vírastrekkivagninn þangað sem þörf er fyrir hann ef ekki eru tök á beinni vírastrekkingu. Með því sjáum við möguleika á því að auka enn við þjónustu Hampiðjunnar við útgerðarfélög og áhafnir skipanna.”
En virkar strekkingin eins og til er ætlast?
Er samband náðist við Friðleif Einarsson, sem vitnað er til hér að framan, var hann með Helgu Maríu að veiðum á Fjöllunum, sem veiðisvæðið er nefnt, vestur af Reykjanesi í slæmu veðri.
,,Það virkar allt vonum framar. Maður finnur strax muninn. Strekktir vírar þýða að hægt er að kasta hvenær sem er, sama hvort sem það er á grunnu eða djúpu vatni. Vírarnir eru alltaf strekktir og klárir til notkunar á togspilunum. Þá held ég að það sé til mikilla bóta að boðið verði upp á þessa þjónustu víðar,” segir Friðleifur.