Skip to main content

Þjónusta heimaflotann á Nýfundnalandi

Meðal dótturfyrirtækja Hampiðjunnar erlendis er Hampiðjan Canada sem staðsett er við Spánverjaflóa (Spaniards Bay) á Nýfundnalandi eða réttara sagt Nýfundnalandi – Labrador eins og fylkið heitir núna. Fyrirtækið byggir á gömlum grunni og starfsemin snýst um að sjá útgerðarfyrirtækjum í landshlutanum fyrir veiðarfærum og þjónustu.

Að sögn David Kelly, framkvæmdastjóra Hampiðjan Canada,  var fyrirtækið í eigu fjölskyldu hans áður en Hampiðjan keypti félagið á sínum tíma og  varð við það hluti af Hampiðjan Group. Starfsmenn eru allt að 12 talsins þegar umsvifin eru mest.

,,Það sem við gerum er að þjónusta heimaflotann. Við útbúum þau veiðarfæri sem skipin þurfa og veitum þá veiðarfæraþjónustu sem þörf er á. Að auki erum við umboðsaðilar fyrir Thyboron toghlera,“ segir David Kelly.

Svo sem kunnugt er þá hrundi þorskstofninn undan ströndum Nýfundnalands – Labrador í byrjun síðasta áratugs liðinnar aldar og það varð til þess að stjórnvöld í Kanada settu algjört bann við þorskveiðum við austurströnd landsins árið 1992. Nú rúmlega 20 árum síðar sýnir stofninn hæg batamerki en beinar þorskveiðar eru þó enn bannaðar. Ekki þarf að fjölyrða um áhrif þessa fyrir sjávarbyggðirnar á Nýfundnalandi – Labrador því lengst af síðustu öld nam árleg þorskveiði að jafnaði um eða yfir 250 þúsund tonnum og mest varð veiðin í lok sjötta áratugarins en þá veiddust meira en 800 þúsund tonn.

Að sögn David Kelly hafa heimamenn þurft að aðlaga sig að breyttum aðstæðum.

,,Í dag er mest um að skipin veiði ýmiss konar krabbategundir og rækju og veiðarfærin eru botntroll. Þorskur veiðist með sem aukaafli en leyfilegur þorskafli er hins vegar ákaflega takmarkaður. Flest heimaskipanna eru um 20 metra löng en skipin, þar sem aflinn er unninn um borð, eru þó allt upp í 70 metrar að lengd.“

Líkt og önnur dótturfyrirtæki Hampiðjunnar fær Hampiðjan Canada allt netagerðarefnið frá Hampiðjan Baltic í Litháen. David Kelly segir að flutningsleiðir séu góðar enda sé Eimskip með áætlunarsiglingar til Nýfundnalands. Það breyti því þó ekki að flutningskostnaður sé töluverður og hafi áhrif á verð veiðarfæranna.

HampCanadaIMG_4566Web