Þúsundasta Glorían um borð í Hákon EA 148
Fyrr í sumar var gengið frá samningi milli útgerðarfélagsins Gjögurs hf. og Hampiðjunnar um kaup félagsins á 1600 metra Gloríumakrílflottrolli fyrir fjölveiðiskip útgerðarinnar, Hákon EA 148. Þetta væri í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema vegna þess að um er að ræða þúsundasta Gloríuflottrollið sem framleitt hefur verið hjá trolldeild Hampiðjunnar hérlendis.
Hampiðjan óskar útgerð og áhöfn Hákons EA 148 til hamingju með nýja flottrollið, þakkar fyrir viðskiptin með óskum um áframhaldandi velgengi í rekstri þessa mikla aflaskips í framtíðinni.
Nýja flottrollið virkar mjög vel
Hákon EA hefur verið á makrílveiðum í sumar og er tíðindamaður heimasíðunnar ræddi við Björgvin Birgisson, sem er skipstjóri á móti Guðjóni Jóhannssyni, var skipið í vari við Rif og frysting á makríl í fullum gangi.
,,Við höfum verið að veiðum í Kolluálnum vestur af Snæfellsnesi en það gerði haugabrælu í nótt og því var ákveðið að leita vars. Gærdagurinn var reyndar mjög góður. Við fengum rúmlega 300 tonn af makríl í tveimur holum og það þarf tíma til að vinna það magn. Makrílinn er hausaður og heilfrystur um borð og afkastagetan í frystingunni er um 80 til 90 tonn á sólarhring,“ segir Björgvin en hann upplýsir að reynslan af nýja Gloríuflottrollinu sé mjög góð.
,,Þetta er fyrsta sérhannaða uppsjávartrollið sem við notum en við erum einnig með stærra flottroll um borð. Það hefur þó aldrei virkað mjög vel á makrílveiðum. Við höfum notað nýja flottrollið frá því að vertíðin hófst í byrjun júlí. Byrjunin var reyndar ekki góð því við rifum belginn fljótlega en eftir það hefur allt gengið eins og í sögu og veiðin hefur verið góð,“ segir Björgvin Birgisson.
Gloría skal það heita!
Upphaf Gloríunnar má rekja til úthafskarfaveiðanna sem hófust hjá frystitogaraflotanum árið 1989, suðvestur af Reykjanesi. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Mikil þróunarvinna hefur átt sér stað við gerð Gloríuflottrollanna og er hún undirstaðan að þeim árangri sem Hampiðjan hefur náð á þessu sviði. Að sögn Guðmundar Gunnarssonar, þróunarstjóra Hampiðjunnar, hefði þessi árangur ekki náðst nema vegna náins samstarfs við íslenskar útgerðir, skipstjórnarmenn og sjómenn á þeim 24 árum sem liðin eru frá því að frumgerð Gloríu flottrollanna leit dagsins ljós. Guðmundur man vel eftir þeim tíma og sögunni á bak við nafnið á þessum fengsælu trollum.
,,Nafnið er þannig tilkomið að við vorum að reyna nýja gerð af flottrolli um borð í frystitogaranum Haraldi Kristjánssyni HF á Reykjaneshryggnum. Eftir 11 daga árangurslausar tilraunir til að fá trollið til að virka þá tókst það loksins þann 1. maí árið 1989.
Þetta var byrjunin á úthafskarfaævintýrinu sem enn er í gangi þótt veiðin sé ekki sú sama og þegar best lét árið 1996, að mig minnir.
Á leiðinni til lands vorum við Páll Eyjólfsson skipstjóri að bæta trollið niðri á trolldekki. Við vorum sammála um að veiðarfærið virkaði vel þrátt fyrir alla erfiðleikana við að taka það í notkun.
Það er hefð fyrir því að gefa veiðarfærum nöfn ef þau virka vel í veiði. Við ræddum um hvaða nafn við ættum að velja á nýja úthafskarfatrollið. Það komu fram ýmsar tilllögur en það var loks Páll skipstjóri sem hjó á hnútinn og sagði stundarhátt: ,,Þið í Hampiðjunni hafið nú gert meiriháttar gloríur með þetta troll ykkar!“ Ég greip þessi ummæli á lofti og sagði við Pál; ,,Þetta er nafnið sem við munum notum á úthafskarfatrollið. Gloría skal það heita!“
60% Gloríuflottrollanna á markað erlendis
Í dag er Gloríuflottrollið notað til veiða á flestum tegundum uppsjávarfiska sem veiddir eru miðsjávar og uppi í yfirborði ásamt sérhannaðri útfærslu sem notuð er nálægt botni og veiðir fisk meira á breiddina en hæðina. En það er ekki bara á Íslandi sem Hampiðjan hefur náð árangri með Gloríuna því hún hefur einnig getið sér gott orð í 24 löndum víðs vegar í heiminum. Til marks um það má nefna að um 60% af Gloríuflottrollunum hafa farið á markað erlendis.
Eitt af höfuðmarkmiðum Hampiðjunnar er að vera leiðandi í sölu og þjónustu á afburða veiðarfærum á mörkuðum sem óska eftir gæðum og hafa efni á þeim. Fyrirtækið mun því við þennan merka áfanga leitast við að sýna áfram dirfsku og frumkvæði í nýsköpun og vöruþróun á sviði flottrollsveiða í framtíðinni.