Skip to main content

Thyborönhlerarnir hafa virkað óaðfinnanlega
– segir Snorri Snorrason skipstjóri á Klakki SK

,,Það er einstaklega gott að kasta þessum toghlerum. Þeir byrja að ,,skvera“ trollið um leið og þeir eru komnir í sjó, ólíkt mörgum öðrum hlerum sem e.t.v. fara ekki að virka fyrr en þeir eru komnir niður á allt að 12 faðma dýpi. Þá eru þeir léttir í hífingu. Við höfum reyndar þann háttinn á að hífa alltaf á sama hraða, fremur hægt, en reynslan sýnir að það fer mun betur með fiskinn í trollinu.“

Snorri skipper  Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Þetta sagði Snorri Snorrason, skipstjóri á ísfisktogaranum Klakki SK, er rætt var við hann að aflokinni síðustu veiðiferð skipsins. Útgerð Klakks festi kaup á Thyborön botnfisktoghlerum hjá Hampiðjunni í apríl sl. og segist Snorri vera hæstánægður með árangurinn fram að þessu. Hlerarnir eru af gerðinni Thyborön T-16 Ísland og eru þeir hvor um sig 6,5 metrar að flatarmáli og vega 3.000 kg hvor. Hlerarnir voru teknir um borð í aprímánuði sl. og voru notaðir í þrjár veiðiferðir í vor áður en skipið fór til rækjuveiða og síðar makrílveiða í sumar. Frá því í lok ágúst hefur Klakkur verið á botnfiskveiðum og hlerarnir hafa virkað óaðfinnanlega, að mati Snorra.
,,Thyborönhlerarnir eru heldur léttari en þeir sem við notuðum en flatarmálið er örlítið meira miðað við uppgefnar stærðir frá framleiðendum. Helsti kosturinn, sem ég tók strax eftir, er sá að nýju hlerarnir ,,skvera“ betur en þeir gömlu og byrja að vinna strax eftir að þeir eru komnir í sjó. Við erum með 60 faðma  grandara og ég vil helst að bilið milli hlera sé sem næst því. Sumir vilja hafa hlerabilið meira eða minna þannig að það skakki allt að sex föðmum í hvora áttina en hjá okkur hefur bilið verið þetta 58 til 63 faðmar,“ segir Snorri en hann segir mikla áherslu vera lagða á það hjá útgerðinni að gæði fisksins séu sem mest. Töluverð þróunarvinna liggur þar að baki og niðurstaðan sé sú að taka alls ekki meira en sex til átta tonna hol og hífa trollið á tiltölulega hægum hraða. Sé aflinn eða hífingarhraðinn meiri þá sé hætta á að fiskurinn blóðspringi í trollpokanum.

 

2013-04-15 23.04.06crop

Sitja vel í botni og ,,skvera“ alltaf jafn vel
Með nýjustu veiðifæratækni getur Snorri ráðið því á hvaða dýpi hlerarnir vinna hverju sinni.
,,Stundum lætur maður hlerana vera í botni og Thyborönhlerarnir sitja mjög vel við slíkar aðstæður. Ef verið er að draga á ósléttum botni þá hækka ég hlerahæðina og fyrir kemur að þeir eru í allt að tíu faðma hæð yfir botninum. Það á einkum við um ef togað er á hólóttum og grýttum botni. Það er sama hver hæðin er, hlerarnir ,,skvera“ alltaf jafn vel og þeir halda þeim eiginleikum alveg upp í yfirborðið.“
,,Ég hef alltaf verið mjög hrifinn af Thyborön og hef aldrei reynt betri toghlera en frá því fyrirtæki. Við höfum pófað okkur áfram með bakstroffur og notað frá einni og upp í þrjár og best hefur gefist að nota bara eina bakstroffu en með tveimur hjálparkeðjum. Með því sitja hlerarnir best. Það er hægt að velja um fjórar mismunandi útgáfur á ,,skverun“ en ég hef haldið þeirri stillingu sem var á hlerunum þegar við fengum þá. Það er næst mesta ,,skverunin“ en svo höfum við mögulega á að hækka eða lækka þá stillingu. Minnstu ,,skverunina“ notum við þó aldrei,“ segir Snorri en hann kvartar ekki yfir aflabrögðunum í haust og í vetur þótt tíðarfarið hafi verið með ólíkindum leiðinlegt.

Hörkuveiði
,,Það hefur verið hörkuveiði allt frá Vestfjarðamiðum og austur á Digranesflak. Okkur vantaði reyndar tíu tonn upp á skammtinn í síðustu veiðiferð en þar var mínum eigin klaufaskap um að kenna. Í veiðiferðinni á undan fórum við út á mánudagskvöldi og vorum komnir til hafnar með 130 tonna afla í hádeginu á laugardag. Það var tíu tíma sigling á veiðisvæðið hvora leið þannig aflabrögðin voru mjög góð,“ segir Snorri Snorrason.