Skip to main content

Ísfisktogarinn Akurey AK hefur nú lokið sinni annarri veiðiferð eftir að þriðja togspilinu og nýjum grandaravindum var komið fyrir. Þetta gerir skipverjum kleift að toga samtímis með tveimur trollum og er búnaðurinn farinn að virka fullkomlega. Verkið vegna tveggja trolla veiðanna var unnið af Stálsmiðjunni Framtaki í Hafnarfjarðarhöfn.

 

,,Framkvæmdir gengu mjög vel og reyndar mun betur en ég þorði nokkru sinni að vona,” segir Eiríkur Jónsson skipstjóri.

Að sögn Eiríks var þriðju togvindunni komið fyrir bakborðsmegin á þilfarinu sem og tvær grandarvindur til viðbótar. Eru grandaravindurnar um borð því sex talsins. Allar vindur skipsins eru frá Naust Marine.

 

,,Við notum áfram Thyborøn toghlerana okkar en trollin tvö, sem eru af gerðinni T90 Hemmer 360, voru sett upp sérstaklega fyrir okkur hjá Hampiðjunni á Akureyri. Þau eru hvort um sig aðeins minni en Hemmertrollið sem við höfum verið að nota,” segir Eiríkur en að sögn hans er í mörg horn að líta við breytingu sem þessa.

 

,,Það er 45 faðma (82,3 metra) langur grandari á hvoru trolli og bilið milli hlera er milli 180 til 200 metrar eftir dýpi. Í miðjunni erum við með fimm tonna snúningslóð. Það verður tengt þriðju togvindunni en reiknireglan segir að lóðið eigi að vera 70-75% af þyngd hleranna sem í okkar tilviki eru 7,4 tonn. Til að auðvelda mönnum vinnuna við lóðið er búið að setja brú yfir skutrennuna,” segir Eiríkur Jónsson en auk þriðja togvírsins tengjast einnig innri grandarar beggja trolla lóðinu.

 

Í fyrstu veiðiferðinni reyndi lítið á tveggja trolla veiðarnar en í annari veiðiferðinni var eingöngu notast við tvö troll og reyndist það mjög vel hefur allt gengið upp að sögn Eiríks Jónssonar. Akurey er nú í sinni þriðju veiðiferð eftir breytingar og er áætluð löndun í lok vikunnar.