„Vorið 1934, þegar kreppan mikla var í algleymingi, stofnaði þrettán manna hópur skipstjóra og vélstjóra nýtt framleiðslufyrirtæki í Reykjavík til að framleiða trollnet, tóg og fiskilínur fyrir íslenska fiskiskipaflotann því mikill skortur var á þessum efnum til veiðarfæragerðar milli stríða.
Hampiðjan hefur síðan vaxið og dafnað og er nú eitt stærsta veiðarfærafyrirtæki heims. Framleiðsla á netum og köðlum hefur ætið verið kjarnastarfsemi fyrirtækisins. Síðustu tvo áratugina höfum við aukið markaðsforskot okkar enn frekar með byltingarkenndum vörum og snjöllum lausnum fyrir fiskveiðar og olíuiðnað, einkum margvíslegum útfærslum á ofurtógum sem eru sterkari en stál.
Tveir stórir áfangar urðu hjá Hampiðjunni árið 2023 þegar lokið var kaupum á norska fyrirtækinu Mørenot og í framhaldi af því skráning á aðallista Nasdaq Iceland. Með þessum áföngum opnast mikil tækifæri til enn frekari vaxtar og hagræðingar.
Við fögnum framtíðinni og þeim tækifærum sem þar bíða. Við ætlum okkur að halda áherslunni á stöðuga nýsköpun og vöruþróun sem er forsenda þess að Hampiðjan geti haldið áfram á þeirri vegferð sem hún hefur verið á undanfarin ár og áratugi. Við hlökkum til að halda áfram að þjóna viðskiptavinum okkar vel og setja okkar mark á góða umgengni við hafið og fiskveiðiauðlindina. Áhersla Hampiðjunnar á sjálfbærni í umhverfismálum undirstrikar hlutverk hennar sem ábyrgs samfélagsþegns.“