Almennir skilmálar
1. Gildissvið
1.1. Undir viðskiptaskilmála þessa falla öll viðskipti og samningar Hampiðjunnar við viðskiptamann um kaup
á vöru og þjónustu, þar á meðal tilboð, nema um annað sé samið með skriflegum hætti. Sértækir
viðskiptaskilmálar á tilteknum sviðum geta einnig átt við um viðskipti og þjónustu Hampiðjunnar.
1.2. Umsaminn afsláttur á ekki við í þeim tilvikum sem viðskiptamaður hefur fengið sérstakt tilboð í vöru
eða þjónustu.
1.3. Um kaup einstaklinga utan atvinnurekstrar á hvers kyns vöru og/eða þjónustu gilda lög um
neytendakaup nr. 48/2003, lög nr. 16/2016 um neytendasamninga, lög um þjónustukaup nr. 42/2000
og lög nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, ef ákvæði þeirra laga eru slíkum
aðilum hagstæðari en þessir viðskiptaskilmálar kveða á um.
1.4. Kaup á hvers kyns vöru eru almennt háð lögum um lausafjárkaup nr. 50/2000, þar sem ákvæðum
þessara skilmála, heildarsamningi eða viðskiptavenju milli aðila sleppir.
1.5. Vinnsla persónuupplýsinga er í samræmi við ákvæði laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu
persónuupplýsinga, eins og nánar er tilgreint í persónuverndarstefnu Hampiðjunnar og aðgengileg er
á heimasíðu félagsins, www.hampidjan.is.
1.6. Hampiðjan áskilur sér einhliða rétt til að breyta viðskiptaskilmálum þessum eftir því sem efni standa til.
1.7. Viðskiptaskilmálar þessir taka gildi 17.12 2020.
2. Gjaldtaka og greiðslufyrirkomulag
2.1. Um endurgjald fyrir vöru og/eða þjónustu skal fara eftir gildandi gjaldskrá fyrir hverja vöru og/eða
þjónustu Hampiðjunnar á hverjum tíma, nema um annað sé samið sérstaklega. Uppgefin verð eru án
virðisaukaskatts nema annað sé skýrlega tekið fram. Vörur og/eða þjónustu skal almennt staðgreiða.
Annar greiðslumáti en skv. greiðsluseðlum eða reikningi telst ófullnægjandi.
2.2. Hafi verið samið um annan greiðslumáta en staðgreiðslu skal Hampiðjan senda út reikning fyrir selda
vöru og/eða þjónustu. Gjalddagi reiknings sem og eindagi hans koma fram á útgefnum reikningi og
vísast til þess um ákvörðun þeirra. Reiknast dráttarvextir á reikninga sem greiddir eru eftir eindaga í
samræmi við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Við vanskil reikninga reiknast dráttarvextir frá
eindaga til greiðsludags.
2.3. Athugasemdir vegna útgefinna reikninga skulu berast Hampiðjunni innan 30 daga frá útgáfudegi
reiknings. Verði ágreiningur um fjárhæð reiknings er viðskiptamanni einungis heimilt að bíða með
greiðslu á þeirri fjárhæð sem raunverulegur ágreiningur er um.
3. Skyldur og ábyrgð viðskiptamanns
3.1. Áhætta vegna vöru flyst frá Hampiðjunni til viðskiptavinar við afhendingu. Vara telst afhent um leið og
viðskiptamaður hefur veitt henni viðtöku og ber viðskiptamaður áhættu af vörunni frá og með því
tímamarki. Veiti viðskiptavinur vörunni ekki viðtöku eða vitjar hennar ekki vegna atvika er hann varða,
flyst áhætta vegna vörunnar yfir á viðskiptavin um leið og móttaka var möguleg eða í síðasta lagi þremur
dögum eftir að honum var tilkynnt um að vara væri tilbúin til afhendingar.
3.2. Skoðunarskylda hvílir á viðskiptamanni við móttöku á vöru og skal viðskiptamaður senda Hampiðjunni
kvörtun innan 8 daga frá móttöku vöru ef hann telur vöru og/eða þjónustu ekki í samræmi við samning
aðila. Krafa viðskiptamanns þess efnis skal send Hampiðjunni sannanlega og án tafa frá því að
viðskiptamaður varð umkvörtunarefnisins var eða mátti verða þess var. Sinni viðskiptamaður ekki
þessari skyldu sinni getur viðskiptamaður ekki síðar komið fram með slíka kröfu.
3.3. Viðskiptavinur skuldbindur sig að fara eftir leiðbeiningum framleiðanda um rétta meðferð og viðhald
vöru og viðhafa eftirlit með henni.
3.4. Viðskiptavinur ber ábyrgð á leiðbeiningum og fyrirskipunum sem hann og/eða eftir atvikum starfsmenn
hans gefa Hampiðjunni. Þá ber viðskiptavinur ábyrgð á réttmæti upplýsinga sem hann og/eða eftir
atvikum starfsmenn hans veita Hampiðjunni.
4. Skyldur og ábyrgð Hampiðjunnar
4.1. Hampiðjan ber ábyrgð á að þjónusta og/eða vara sé í samræmi við samning aðila, með þeim
takmörkunum sem á eftir koma. Ábyrgð er þó almennt háð því að notkun hvers kyns vöru sé í samræmi
við leiðbeiningar framleiðanda og/eða Hampiðjunnar eftir atvikum. Sé þjónusta og/eða vara ekki í
samræmi við samning aðila getur Hampiðjan bætt úr með nýrri afhendingu eða með viðgerð á afhentri
vöru innan hæfilegs tíma.
4.2. Með nýrri afhendingu telst Hampiðjan hafa að fullu gert upp við viðskiptamann vegna gallaðrar vöru.
Hampiðjan hefur þó ávallt rétt til að reyna viðgerð á vöru. Viðskiptamaður ber þá ábyrgð og kostnað af
því að afhenda Hampiðjunni vöruna og telst hún ekki réttilega afhent fyrr en við móttöku Hampiðjunnar
á vörunni við þá starfsstöð Hampiðjunnar sem tiltekin var á upprunalegum sölureikningi vegna
umræddrar vöru.
4.3. Komi í ljós að vara og/eða þjónusta telst ekki í samræmi við samning aðila af ástæðum sem ekki er
hægt að rekja til Hampiðjunnar, svo sem vegna rangrar umönnunar, samsetningar, notkunar eða
breytinga sem ekki eru gerðar í samræmi við leiðbeiningar eða lýsingu vöru, er Hampiðjunni heimilt að
innheimta þann kostnað sem hlaust af viðgerð, þó viðgerð skili ekki tilætluðum árangri.
5. Netviðskipti
5.1. Rafrænn fjarsölusamningur er jafngildur skriflegum samningi.
5.2. Ef um kaup einstaklinga utan atvinnurekstrar er að ræða, hefur neytandi þó rétt til að falla frá kaupunum,
án kostnaðar, í allt að fjórtán daga frá móttöku vörunnar að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum: i) vörunni
sé skilað til Hampiðjunnar; ii) innsigli á vöru má ekki vera rofið; iii) varan sé óskemmd og í upprunalegum
umbúðum; og iv) að ekki sé um sérpöntun eða sérsniðna vöru að ræða.
5.3. Við vörusölu vegna netviðskipta ber viðskiptavinur ábyrgð á sendingarkostnaði.
5.4. Við vöruskil er allur sendingarkostnaður á ábyrgð kaupanda. Þegar sendingarkostnaður er innifalinn í
verði vöru á reikningi dregst sendingarkostnaður frá við endurgreiðslu. Ef vara er endursend til
Hampiðjunnar skal viðskiptavinur nota upprunalegar umbúðir eða aðrar fullnægjandi umbúðir til að
tryggja að varan skemmist ekki í flutningum. Einnig skal viðskiptavinur tryggja vöruna gegn
flutningsskemmdum ef unnt er. Viðskiptavinur ber ábyrgð á vörunni frá því hún er send og þar til
Hampiðjan hefur móttekið hana.
6. Almennar ábyrgðartakmarkanir
6.1. Í viðskiptum Hampiðjunnar við aðila í atvinnurekstri er ábyrgðartími gallaðrar vöru og/eða þjónustu 90
dagar, sbr. þó ákvæði 3.2. um skoðunar- og tilkynningaskyldu. Sé um neytendakaup að ræða, þ.e.
kaup aðila utan atvinnurekstrar, er ábyrgðartíminn á seldri vöru 2 ár í samræmi við lög nr. 48/2003 um
neytendakaup. Ef ábyrgðartími er annar en að framan greinir skal þess sérstaklega getið í
heildarsamningi eða á sölureikningi.
6.2. Við mat á því hvort söluhlutur er gallaður skal miðað við það tímamark þegar áhættan af söluhlut flyst
yfir til viðskiptamanns, jafnvel þótt gallinn komi ekki fram fyrr en síðar. Ef annað sannast ekki skal galli,
sem upp kemur innan 90 daga frá því tímamarki, talinn hafa verið til staðar við afhendingu. Þetta gildir
þó ekki þegar telja verður að það geti ekki á nokkurn hátt samrýmst eðli gallans eða vörunnar.
6.3. Ábyrgð Hampiðjunnar gagnvart viðskiptavini á öllu tjóni, tapi eða kröfum, hvort sem stafar af eða frá
brotum á samningi aðila, galla á vöru eða af öðrum ástæðum takmarkast við verðmæti hins selda sem
fyrrnefnd krafa snýr að og geta bætur vegna galla aldrei orðið hærri en kaupverð vörunnar sem um
ræðir í hverju tilviki.
6.4. Ábyrgð Hampiðjunnar er í öllu falli háð því að viðskiptavinur hafi að öðru leyti efnt skyldur sínar, gætt
varúðarskyldu og hagað afgreiðslu viðskiptanna að öllu leyti í samræmi við fyrirmæli laga, reglugerða
og eftir atvikum samkvæmt reglum eða skilmálum framleiðanda eða annars þar til bærs þriðja aðila.
6.5. Hampiðjan ber einungis ábyrgð á beinu tjóni viðskiptavinar á hinu selda.
6.6. Hampiðjan ber í engu tilviki ábyrgð á tjóni sem stafar af vörum og/eða þjónustu, rekstrartapi
viðskiptavinar og/eða þriðja aðila, né heldur annarskonar tjóni, hvort heldur er öðru beinu tjóni, óbeinu
eða afleiddu tjóni slíkra aðila hvaða nöfnum sem það kann að nefnast, þ.m.t. glötuðum ágóða,
ráðgerðum sparnaði, rekstrartjóni, tapi á áætluðum sparnaði, skerðingu á viðskiptavild, refsikenndum
skaðabótum, hvort sem tjónið er rakið til galla, skemmda eða eyðileggingar á hinu keypta eða til annarra
ástæðna. Hampiðjan ber ekki ábyrgð á tjóni sem viðskiptavinur eða þriðji aðili sem ekki er á vegum
Hampiðjunnar veldur.
6.7. Viðskiptavinur á engar kröfur á hendur Hampiðjunni vegna eiginleika eða skorts á eiginleikum hins
keypta enda hafði hann möguleika á því að kynna sér eiginleika og takmarkanir hins keypta með lestri
leiðbeininga eða lýsinga sem fylgja hinu keypta eða eru almennt aðgengilegar, t.d. hjá framleiðanda
hins keypta. Hampiðjan ábyrgist ekki tiltekinn árangur af notkun vöru og/eða þjónustu.
6.8. Eðlilegt slit á vörum bætist ekki, enda ending þeirra í samræmi við það sem búast má við.
6.9. Að öðru leyti en fram kemur í þessum skilmálum undanskilur Hampiðjan sig ábyrgð á öllu tjóni sem
verður á persónum, fasteignum, skipum og lausafé og kann að stafa af búnaði eða þjónustu sem
Hampiðjan hefur selt, útvegað eða veitt. Ef takmörkun á tjóni skv. skilmálum þessum er talin ganga
lengra en lög heimila skulu skilmálar þessir gilda að því marki sem lög leyfa.
7. Skaðleysi
7.1. Viðskiptavinir skuldbinda sig til að fara að landslögum og opinberum stjórnvaldsákvörðun. Þá
skuldbinda viðskiptavinir sig til að virða réttindi þriðja aðila og brjóta ekki gegn slíkum réttindum, hvort
sem um er að ræða höfundarrétt, eignarrétt, nýtingarrétt eða hvers kyns annars konar réttindi. Komi til
brota samkvæmt framansögðu eða önnur háttsemi/athafnaleysi sem veldur Hampiðjunni með
einhverjum hætti tjóni, skuldbinda viðskiptavinir sig til þess að halda Hampiðjunni að fullu skaðlausu
gegn slíku tjóni.
8. Óviðráðanleg atvik – Force Majeure
8.1. Hampiðjan ber ekki ábyrgð á tjóni eða tapi sem viðskiptavinur kann að verða fyrir og orsakast af
óviðráðanlegum eða ófyrirséðum atvikum sem ekki eru til staðar við samningsgerð, svo sem
vinnudeildum, styrjöldum, uppreisnum, náttúruhamförum, aðgerðum stjórnvalda á sviði gjaldeyris- og
viðskiptamála, viðskiptabönnum, hafnbönnum, almennum samgönguhindrunum, orkuskorti og
sambærilegum óviðráðanlegum atvikum.
9. Trúnaður – Hugverkréttur
9.1. Hin selda vara og/eða þjónusta er lögvernduð af einu eða fleiri einkaleyfum og/eða
einkaleyfisumsóknum. Í þeim tilvikum þar sem Hampiðjan selur eigin vöru og/eða þjónustu þá er
Hampiðjan eigandi og einkaréttarhafi að höfundarrétti og hvers kyns öðrum réttindum á sviði hugverka
og auðkennaréttar, hvort sem um er að ræða vörumerkjarétt, hönnunarrétt, einkaleyfisrétt, eignarrétt
að atvinnuleyndarmálum, sérþekkingu (e. know-how) eða önnur réttindi, hvaða nafni sem þau kunna
að nefnast. Allar upplýsingar, svo sem teikningar og/eða munnlegar og skriflegar upplýsingar sem
viðskiptavinur fær frá Hampiðjunni og lúta að hinu selda, virkni þess, tækni sem beitt er við framleiðslu
þess ásamt hönnun og lögum er trúnaðarmál milli viðskiptavinar og Hampiðjunnar og lofar
viðskiptavinur að halda þann trúnað á samningstíma og helst trúnaðarskylda eftir að samningi er lokið.
Samningur felur ekki í sér framsal slíkra réttinda að öðru leyti en því sem beinlínis er tekið fram í
samningi. Brot viðskiptavinar gegn réttindum Hampiðjunnar skv. þessu ákvæði, varðar dagsektum að
fjárhæð kr. 350.000 fyrir hvern þann dag sem brot varir. Heimild Hampiðjunnar til að krefjast dagsekta
takmarkar ekki með neinum hætti önnur réttindi sem félagið kann að njóta eða úrræða sem það getur
gripið til.
10. Vanefndir og vanefndaúrræði
10.1. Til vanefnda af hálfu viðskiptavinar teljast hvers kyns brot á skilmálum þessum og samningum á
milli Hampiðjunnar og viðskiptavinar, þar með talið hvers kyns greiðsludráttur. Hampiðjan áskilur sér
rétt til að hætta að veita og eftir atvikum loka þjónustu, sem og að afhenda vörur.
10.2. Við greiðsludrátt áskilur Hampiðjan sér rétt til að reikna dráttarvexti á útistandandi fjárhæð frá
eindaga til greiðsludags í samræmi við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
10.3. Ef um verulega vanefnd af hálfu viðskiptavinar er að ræða áskilur Hampiðjan sér rétt til að grípa til
eftirfarandi ráðstafana án sérstakrar viðvörunar (saman eða sitt í hvoru lagi), (i) einhliða riftunar
samnings, (ii) taka vörur og búnað í sína vörslu, (iii) innheimta allar gjaldfallnar og ógjaldfallnar greiðslur,
eða (iv) beita öðrum vanefndaúrræðum eftir því sem við á.
11. Gjaldþrot
11.1. Samningur fellur sjálfkrafa úr gildi við gjaldþrot viðskiptavinar. Verði viðskiptavini veitt heimild til
greiðslustöðvunar eða til nauðasamningsumleitana við lánardrottna sína er uppsagnarfrestur samnings
þessa einn mánuður þar til fjárhagslegri endurskipulagningu viðkomandi aðila er formlega lokið. Verði
viðskiptavini veitt heimild til greiðslustöðvunar eða til nauðasamningsumleitana við lánardrottna sína
getur Hampiðjan krafist þess að sett verði trygging fyrir efndum samnings á því tímabili sem fjárhagsleg
endurskipulagning viðskiptavinar stendur yfir.
12. Framsal réttinda
12.1. Viðskiptavinur getur ekki framselt réttindi sín samkvæmt samningi án skriflegs samþykkis
Hampiðjunnar.
13. Misræmi í skilmálum
13.1. Ákvæði sértækra viðskiptaskilmála, samninga, samningsviðauka og samþykktra tilboða skulu
ganga framar almennu viðskiptaskilmálum þessum.
14. Lög og varnarþing
14.1. Íslensk lög skulu gilda um viðskiptaskilmála þessa, grunnsamninga, samningsviðauka og eftir
atvikum tilboð sem Hampiðjan gerir við viðskiptavini sína. Ágreining um framkvæmd samninga skulu
aðilar leitast við að leysa með samkomulagi. Ef ekki næst samkomulag skulu ágreiningsmál rekin fyrir
Héraðsdómi Reykjavíkur.