Tankferð Hampiðjunnar til Hirtshals í lok nóvember tókst afar vel og var þátttaka góð. Um 50 manns tóku þátt í ferðinni og var hópurinn að þessu sinni óvenju alþjóðlegur. Þar voru skipstjórar, stýrimenn og aðrir fulltrúar útgerða frá Chile, Írlandi, Skotlandi, Nýja-Sjálandi, Noregi, Kanada, Færeyjum, Danmörku og Íslandi.
Dagskráin var sett saman með þarfir og bakgrunn þátttakenda í huga og ríkti almenn ánægja með fyrirkomulag og framkvæmd ferðarinnar. Í tilraunatankinum voru kynntar ýmsar nýjungar í veiðarfærum, meðal annars Flow Gear hálfhringshopparar sem koma í stað hefðbundinna rockhoppera á botntrollum. Straumlínulagað form þeirra dregur úr mótstöðu bæði í vatni og á sjávarbotni, sem minnkar álag á veiðarfæri og dregur úr orkunotkun við veiðar.
Jafnframt voru kynntar nýjar útfærslur á kolmunnatrollum og nýjar gerðir síldar- og makrílpoka. Áhersla var lögð á hegðun veiðarfæranna í vatni og hvernig mismunandi lausnir koma út við aðstæður sem líkja eftir raunverulegri notkun.
Thyborøn Trawldoor kynnti nýja trollhlera með sjálfvirkri hæðarstýringu sem heldur fyrirfram skilgreindu bili milli hlera og sjávarbotns meðan veiðar standa yfir. Lausnin hefur reynst vel við krefjandi botnaðstæður, meðal annars á ójöfnum botni, og veitir jafnframt aukinn sveigjanleika í uppsjávarveiðum þar sem auðvelt er að laga hæð hleranna að hreyfingu fiskitorfa.
Simberg var með kynningu á tækjabúnaði frá Simrad. Í þessari ferð var tekin upp sú nýbreytni að beintenging var við skip á Íslandsmiðum, sem gerði kleift að sýna notkun tækjanna í rauntíma. Þetta fyrirkomulag þótti heppnast vel og fékk jákvæð viðbrögð þátttakenda. Meðal þeirra lausna sem kynntar voru var trollnemakerfi sem sýnir raunstaðsetningu trolls inn á sónara og plottara um borð, nýr sambyggður SN50 sónar og fjölgeisla dýptarmælir á 50 kHz fyrir botnfisktogara, straummælir sem sýnir strauma á mismunandi dýpi og nýtist meðal annars vel við makrílveiðar við yfirborð, nýr FS80 höfuðlínusónar með breytt tíðnisvið, auk annarra sónara-, dýptar- og trollkerfa.
Hluti dagskrárinnar fór fram utan tilraunatanksins. Hópurinn heimsótti Karstensens skipasmíðastöðina þar sem nýtt uppsjávarskip Skinneyjar-Þinganess, Ásgrímur Halldórsson, var skoðað. Skipið er í smíðum og er áætlað að það komi til landsins snemma í vor. Einnig var farið í heimsókn á netaverkstæði Cosmos í Skagen og Hirtshals, dótturfyrirtæki Hampiðjunnar.
Fjölbreyttur bakgrunnur þátttakenda skapaði góðan grundvöll fyrir faglegar umræður og persónuleg samskipti, ekki síst í sameiginlegum kvöldverðum á meðan á ferðinni stóð. Hampiðjan bauð jafnframt til jólakvöldverðar í Kaupmannahöfn síðasta kvöldið áður en haldið var heim á leið. Hluti hópsins nýtti tækifærið og framlengdi dvölina yfir helgi í jólaskreyttri borginni.
„Svona ferðir skipta miklu máli. Þær gefa okkur færi á að kynna nýjungar, ræða beint við notendur og fá dýrmæt viðbrögð frá fólki sem vinnur daglega með veiðarfærin,“ segir Jón Oddur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hampiðjunnar Ísland.
Ferðin var í alla staði vel heppnuð og undirstrikaði mikilvægi þess að sameina faglega kynningu, miðlun þekkingar og reynslu og persónuleg samskipti milli þátttakenda og starfsfólks Hampiðjunnar.

