Jón Oddur Davíðsson, iðnrekstrarfræðingur og upplýsingatæknistjóri Hampiðjunnar, hefur verið ráðinn í stöðu markaðs-og sölustjóra veiðarfæradeildar Hampiðjunnar.
Jón Oddur er enginn nýgræðingur hjá Hampiðjunni. Hann starfaði sem sölumaður kaðla og neta hjá fyrirtækinu á árunum 1987 til 1990 og var ráðinn til Hampiðjunnar að nýju árið 1999 til að hafa umsjón með tækni- og upplýsingarkerfum fyrirtækisins.
,,Ég notaði tímann í þessu hléi frá Hampiðjunni til að fara í Tækniskólann þar sem ég lærði iðnrekstrarfræði. Ég var svo fjármálasstjóri bókbandsstofu um skeið og síðan réði ég mig Platsprents til að sinna sölumálum. Til Hampiðjunnar kom ég aftur árið 1999 og er því búinn að vera samtals 21ár hjá fyrirtækinu. Ég hef verið svo heppinn að fá að þróast í starfi hér innanhúss og komið að starfi í flestum deildum fyrirtækisins með einum eða öðrum hætti.“
Jón Oddur segir að hans helsta starf verði nú að vera í sem bestum tengslum við viðskiptavini Hampiðjunnar á sviði veiðarfæra og útgerðarvara, skipuleggja sölustarfið og stofna til nýrra viðskiptasambanda.
,,Það er stöðug þróun í gerð veiðarfæra og Hampiðjan hefur verið leiðandi á því sviði,“ segir Jón Oddur Davíðsson.