Index: 0

Hampiðjan - Ársreikningur 2015

29.02.2016

Árið 2015

  • Rekstrartekjur voru 58,9 m€ og jukust um 9,0% frá fyrra ári úr 54,0 m€.
  • Hagnaður var 9,9 m€ en var 7,7 m€ árið áður.

Lykilstærðir

  • EBITDA af reglulegri starfsemi var 9,3 m€ en 7,7 m€ árið áður.
  • Hlutdeild í hagnaði HB Granda var 4,0 m€ en var 3,2 m€ árið áður.
  • Heildareignir voru 102,5 m€ en í lok fyrra árs var efnahagurinn 95,1 m€.
  • Vaxtaberandi skuldir voru 21,7 m€ en voru 22,8 m€ árið áður.
  • Eiginfjárhlutfall var 69% en 66% árið áður.
  • Meðalfjöldi starfsmanna á árinu var 559 en var 522 árið þar á undan.

Rekstur

Rekstrartekjur samstæðunnar voru 58,9 m€ og jukust um 9,0% frá árinu áður.

Samstæðan samanstendur af sömu félögum og áður en við bættist Hampidjan Australia sem var stofnuð í byrjun ársins.

Rekstrarhagnaður af reglulegri starfsemi var 7,2 m€ eða 12,2% af rekstrartekjum en var 5,6 m€ eða 10,5% í fyrra.

Fjármunatekjur ásamt hlutdeild í hagnaði HB Granda að frádregnum fjármagnsgjöldum voru 3,6 m€ til tekna en voru 2,9 m€ til tekna á fyrra ári.

Hagnaður ársins var 9,9 m€ en var 7,7 m€ árið 2014.

Efnahagur

Heildareignir voru 102,5 m€ og hafa hækkað úr 95,1 m€ í árslok 2014. Hækkunin er tilkomin að mestu vegna fjárfestinga í vélum og byggingum ásamt eignarhlutum í hlutdeildarfélögum. Einnig hafa birgðir hækkað með tilkomu Hampidjan Australia í samstæðuna.

Eigið fé nam 70,4 m€, en af þeirri upphæð eru 8,6 m€ hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga.

Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í árslok 69% af heildareignum samstæðunnar.

Vaxtaberandi skuldir námu í árslok 21,7 m€ og lækkuðu um 1,1 m€ frá ársbyrjun.

Helstu tölur í íslenskum krónum

Miðað við gengi krónunnar gagnvart evru í lok 2015 þá er velta samstæðunnar 8,3 milljarðar ISK, EBITDA 1,3 milljarðar og hagnaður svipuð tala eða 1,4 milljarðar. Efnahagurinn er 14,5 milljarðar, skuldir 4,5 milljarðar og eigið fé 10,0 milljarðar.

Aðalfundur

Aðalfundur Hampiðjunnar verður haldinn föstudaginn 18. mars 2016 í fundarsal félagsins að Skarfagörðum 4 í Reykjavík og hefst fundurinn klukkan 16:00.

Tillaga stjórnar um arðgreiðslu

Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2016 vegna rekstrarársins 2015 verði greiddar 0,84 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða 410 milljónir ISK. Arðurinn verði greiddur í viku 19.

Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 18. mars 2016, þ.e. viðskipti sem fara fram á þeim degi koma fram í hlutaskrá félagsins á arðsréttindadeginum 22. mars. Arðleysisdagurinn er 21. mars.

Samþykkt ársreiknings

Ársreikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Hampiðjunnar hf. þann 29. febrúar 2016.

Ársreikninginn má nálgast hér.

Hjörtur Erlendsson, forstjóri:

„Sala á veiðarfærum og efnum til veiðarfæragerðar síðastliðið ár var jöfn og góð innanlands og erlendis. Síðustu mánuðir ársins voru sérstaklega góðir á Íslandi vegna tilkomu nýrra skipa í skipaflota landsmanna og sala erlendis var framar vonum, einkum í Bandaríkjunum og Danmörku.

Olíuverð hélt áfram að lækka á síðasta ári og hafði það enn frekari áhrif til lækkunar á sölur til olíuiðnaðarins en vegna þess að vöruframboð Hampiðjunnar fyrir þá markaði er mjög sérhæft þá var lækkunin ekki eins mikil og búast hefði mátt við. Lækkanir á hráefnum til veiðarfæragerðar í kjölfar olíuverðslækkunarinnar hafa verið takmarkaðar og mun minni en búist var við.

Í byrjun ársins var nýtt fyrirtæki stofnað í Ástralíu og er það fyrst og fremst sölufyrirtæki á efnum til veiðarfæragerðar. Í lok ársins var fyrirtækið komið á góðan skrið og mun væntanlega skila samstæðunni söluaukningu á árinu ef annað helst svipað og verið hefur.

Í Thyborøn á vesturströnd Jótlands var opnað nýtt og glæsilegt netaverkstæði síðastliðið sumar. Ennfremur var keypt bygging við Vestmannaeyjahöfn og þar hefur nú verið sett upp netaverkstæði og útgerðavöruverslun. Það netaverkstæði verður stækkað í sumar og gert að fullkomnu nóta- og flottrollaverkstæði. Það er einn liður í stefnu okkar að auka og bæta þjónustu við útgerðir á Íslandi en það er okkar kjarnamarkaður.

Lán lækkuðu undanfarið ár en áfram hefur verið fjárfest í byggingum fyrir netaverkstæði, framleiðslutækjum og vöruþróun.“

Nánari upplýsingar

Frekari upplýsingar veitir Hjörtur Erlendsson forstjóri í síma 664 3361.

Viðurkenndur ráðgjafi

Viðurkenndur ráðgjafi Hampiðjunnar á Nasdaq First North er PwC.

Please fill in the below details in order to view the requested content.