Index: 0

Niðurstaða aðalfundar Hampiðjunnar hf.

29.05.2020

Niðurstaða aðalfundar Hampiðjunnar hf.

Á aðalfundi Hampiðjunnar hf. sem haldinn var 29. maí 2020, var skýrsla stjórnar og ársreikningur fyrir árið 2019 samþykkt samhljóða.

Sjálfkjörið var í félagsstjórn.

Formaður félagsstjórnar

Vilhjálmur Vilhjálmsson

Meðstjórnendur

Kristján Loftsson
Auður Kristín Árnadóttir
Guðmundur Ásgeirsson
Sigrún Þorleifsdóttir

Úrdráttur úr ræðu stjórnarformanns

Í ræðu sinni vék Vilhjálmur Vilhjálmsson stjórnarformaður að áhrifum Covid-19 á rekstur Hampiðjunnar og sagði eftirfarandi:

“Almennt má segja að sú röskun, sem við höfum orðið fyrir til þessa vegna vírussins, hafi verið minni en gera mátti ráð fyrir í upphafi. Sala okkar fyrstu fjóra mánuði þessa árs er óverulega minni en fyrstu fjóra mánuði síðasta árs eða tæp 2%. Þó er rétt að geta þess að sala Jackson í Skotlandi sem kom inn í samstæðuna um áramótin vegur tæp 4% og salan 5,5% minni þegar tillit er tekið til þess.  EBITDA afkoma samstæðu Hampiðjunnar er hins vegar betri fyrstu fjóra mánuði þessa árs en á sama tímabili síðasta ár.  Það er of snemmt að segja til um hvernig maí kemur út en væntanlega fer allt að færast í fyrra horf nú þegar faraldurinn er að ganga niður í okkar helstu starfslöndum.”

Einnig nefndi Vilhjálmur í ræðu sinni að eitt af dótturfyrirtækjum Hampiðjunnar á Íslandi hefði sótt um bætur fyrir nokkra starfsmenn sina en afþakkað þær fyrir mánuði síðan:

“Tólf starfsmenn dótturfélags Hampiðjunnar hf, Hampiðjan Ísland ehf., sóttu um hlutabætur vegna skerts starfshlutfalls í upphafi apríl mánaðar.  Umsóknin var sett fram þegar mikil óvissa ríkti og kórónuveirufaraldurinn hafði töluverð áhrif á rekstur starfstöðva félagsins.  Ekki var hægt að halda uppi starfsemi vegna fjarlægðarreglu og takmörkunum á fjölda starfsmanna í einu rými. Umsóknirnar voru dregnar til baka þann 28. apríl síðastliðinn og fengu allir starfsmenn félagsins laun sín greidd að að fullu frá félaginu um mánaðarmótin apríl-maí.  Þeir starfsmenn sem fengu greiddar bætur inn á sína reikninga, endurgreiddu bæturnar til Vinnumálastofnunar og var síðasta endurgreiðslan gerð þann 6. maí. Enginn kostnaður fellur því á ríkið vegna starfsmanna félagsins, hvorki vegna sóttkvíar eða hlutabóta. Eins og sjá má af dagsetningunum var ákveðið að draga umsóknirnar til baka mörgum dögum áður en umræða  um endurgreiðslur hófst.”

Eftirfarandi tillögur stjórnar Hampiðjunnar voru samþykktar: 

Tillaga um greiðslu arðs

Aðalfundur Hampiðjunnar hf. samþykkir að á árinu 2020 vegna rekstrarársins 2019 verði greiddar 1,15 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða 563 milljónir ISK. Arðurinn verði greiddur í viku 30. Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 29. maí 2019, þ.e. viðskipti sem fara fram á þeim degi koma fram í hlutaskrá félagsins á arðsréttindadeginum 3. júní.  Arðleysisdagurinn er 2. júní.

Tillaga um þóknanir fyrir komandi starfsár

Þóknun til stjórnarmanna verði 210.000 kr. á mánuði, formaður fái þrefaldan hlut.

Tillaga um endurskoðunarfélag

Endurskoðunarfélag verði PricewaterhouseCoopers ehf. 

Tillaga um heimild til kaupa á eigin hlutabréfum

Aðalfundur Hampiðjunnar hf. haldinn 29. maí 2020 veitir stjórn félagsins heimild til að kaupa eigin hluti í félaginu. Heimild þessi stendur í 18 mánuði og takmarkast við að samanlögð kaup fari ekki yfir 10% af heildarhlutafé félagsins á hverjum tíma. Kaupgengið skal miða við síðasta skráða dagslokagengi á markaði áður en kaupsamningur er gerður.

Please fill in the below details in order to view the requested content.