Index: 0

Hampiðjan - sex mánaða árshlutareikningur samstæðu Hampiðjunnar 2023

31.08.2023

Lykilstærðir

Allar fjárhæðir í evrum og samanburðartölur í sviga.

  • Rekstrartekjur voru 166,2 m€ (94,8 m€).
  • EBITDA af reglulegri starfsemi var 21,3 m€ (14,6 m€).
  • Einskiptiskostnaður vegna kaupanna á Mørenot, hlutafjáraukningar og skráningar á aðallista Nasdaq nam um 1,7 m€.
  • Leiðrétt EBITDA vegna þessa einskiptiskostnaðar er því 23,0 m€
  • Hagnaður tímabilsins nam 7,9 m€ (8,3 m€).
  • Áhrif einskiptiskostnaðar á hagnað fyrri hluta ársins nemur tæpum 1,4 m€ og án þess kostnaðar hefði hagnaðurinn verið 9,2 m€.
  • Heildareignir voru 497,9 m€ (295,5 m€ í lok 2022).
  • Vaxtaberandi skuldir voru 177,9 m€ (110,8 m€ í lok 2022).
  • Handbært fé var 62,9 m€ (12,5 m€ í lok 2022).
  • Eiginfjárhlutfall var 53,5% (50,6% í lok 2022).

Rekstur

Rekstrartekjur samstæðunnar voru 166,2 m€ og hækkuðu um 75,4% frá fyrstu sex mánuðum fyrra árs.

EBITDA félagsins hækkaði um 46,6% á milli tímabila eða úr 14,6 m€ á fyrstu sex mánuðum ársins 2022 í 21,3 m€ á fyrstu sex mánuðum þessa árs.

Hagnaður tímabilsins var 7,9 m€ en var 8,3 m€ fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2022.

Efnahagur

Heildareignir voru 497,9 m€ og hafa hækkað úr 295,5 m€ í árslok 2022.
Eigið fé nam 266,5 m€, en af þeirri upphæð eru 14,3 m€ hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga.

Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í lok tímabilsins 53,5% af heildareignum samstæðunnar en var 50,6% í árslok 2022.

Vaxtaberandi skuldir námu í lok tímabils 177,9 m€ samanborið við 110,8 m€ í ársbyrjun.

Árshlutareikningurinn er aðgengilegur á heimasíðu Hampiðjunnar hf., www.hampidjan.is.

Í dag verður haldinn fjárfestakynning kl. 16:15 í höfuðstöðvum félagsins að Skarfagörðum 4. Kynningunni verður jafnframt streymt og er streymið aðgengilegt á heimasíðu félagsins, https://hampidjan.is/fjarmal/streymi

Hjörtur Erlendsson, forstjóri:

„Fyrri hluti þessa árs hefur verið viðburðarríkur í rekstri Hampiðjunnar og þetta ár mun eflaust marka tímamót í 90 ára sögu fyrirtækisins vegna kaupanna á norska fyrirtækinu Mørenot og skráningar á aðallista Kauphallarinnar á Íslandi. Samningaviðræðum við eigendur Mørenot lauk í október á síðasta ári en ekki var hægt að ganga frá kaupunum fyrr en samþykki samkeppnisyfirvalda í Grænlandi, Íslandi og Færeyjum lá fyrir. Samþykkið fékkst í byrjun febrúar á þessu ári og miðast því yfirtökudagurinn við 1. febrúar.

Í framhaldi af kaupunum var ráðist í hlutafjáraukningu ásamt skráningu á aðallista Nasdaq á Íslandi og lauk því ferli í byrjun júní. Mikill áhugi var á hlutabréfum í fyrirtækinu og var eftirspurn eftir þreföldu því magni sem í boði var. Hlutafjáraukningin var til að greiða niður skuldir Mørenot og standa straum af stækkun framleiðslubygginga í Hampidjan Baltic og Vonin Lithuania í Litháen ásamt nýfjárfestingum í framleiðslutækjum til að mæta aukinni eftirspurn eftir veiðarfæraefnum í stækkaðri samstæðu Hampiðjunnar. Fyrir lok júní var búið að greiða niður lán og kröfur Mørenot um 400 mNOK og skuldahlutfall samstæðunnar er orðið hæfilegt og svipað því sem var fyrir kaupin. Nú í september verður gengið frá endanlegum lánasamningum Mørenot sem taka mið af niðurgreiðslunni og breyttu og hagræddu skipulagi Mørenot í kjölfar kaupanna.

Afar vel hefur gengið að ná tökum á rekstri Mørenot. Endurskipulagningu og hagræðingaraðgerðum hefur verið vel tekið af starfsmönnum og stjórnendum og viðskiptavinir hafa verið jákvæðir í alla staði með nýja eigendur og þær breytingar sem unnið er að. Vonast var til að hægt yrði að snúa við rekstri félagsins á þessu ári þannig að í stað taps myndi verða einhver hagnaður af starfseminni. Mjög ánægjulegt er því að sjá að á fyrrihluta ársins hefur það markmið náðst og horfur á að sá rekstrarbati haldi út árið. Vextir hafa hækkað í Noregi sem og annars staðar og jókst vaxtarbyrði Mørenot á fyrrihluta ársins í samræmi við það. Á móti kemur gengishagnaður vegna veikingar norsku krónunnar síðustu mánuði. Niðurgreiðsla lána Mørenot mun síðan létta á vaxtabyrðinni sem annars hefði íþyngt rekstrinum það sem eftir er af árinu.

Velta samstæðunnar á fyrrihluta ársins er rúmlega 75% meiri en á sama tímabili í fyrra og er það að mestu leyti tilkomið vegna tilkomu Mørenot en vel að merkja þá bætast einungis 5 mánuðir við hálfsárs uppgjörið vegna yfirtökudagsins 1. febrúar. EBITDA samstæðunnar varð 21,3 m€ eða 12,8% og þá er ekki búið að leiðrétta fyrir 1,7 m€ einskiptiskostnaði vegna kaupanna, hlutafjáraukningarinnar og skráningu á aðallista Nasdaq. Ef leiðrétt er fyrir þeim kostnaði þá væri EBITDA fyrri hluta ársins 23 m€ samsvarandi 13,8%.

Ef litið er á rekstur samstæðunnar eins og hún var áður og velta og EBITDA Mørenot undanskilin þá var veltuaukning samstæðunnar á fyrri hluta þessa árs 12,8% og EBITDA hlutfallið 15,4% á fyrri hluta síðasta árs en er nú 15,9%. Í þessum tölum er einskiptiskostnaðurinn undanskilinn.

Fyrirséð var, eins og skýrt hefur komið fram í fjárfestakynningum, að núverandi lægra EBITDA hlutfall Mørenot myndi draga niður EBITDA hlutfall samstæðunnar fyrstu árin eftir kaupin þótt EBITDA fjárhæðin sjálf yrði hærri en á fyrri árum. Það gerðist einnig við kaupin á Voninni árið 2016 en með bættum rekstri þá hækkaði hlutfall samstæðunnar aftur.

Ef litið er til hvernig rekstur einstakra fyrirtækja innan samstæðunnar hefur gengið þá hefur rekstur þeirra gengið vel og þá sérstaklega vel hjá Hampiðjan Ísland í kjölfar góðrar loðnuvertíðar og sölu flottrolla á erlenda markaði. Nemur söluaukningin um 33% frá fyrra ári sem var reyndar eitt af bestu söluárum félagsins. Önnur félög hafa einnig sýnt góða söluaukingu að undanskildum Hampidjan Canada og Jackson Trawl í Skotlandi en þar hefur verið sölusamdráttur í kjölfar metsölu ára í fyrra hjá báðum félögunum.

Sala á veiðarfæraefnum sem framleidd eru innan samstæðunnar hefur verið svipuð og á síðasta ári en afkoman hefur hins vegar batnað mikið því hráefni hafa lækkað mikið í verði og eru að nálgast þau verð sem voru fyrir faraldurinn og framboð er orðið stöðugt. Einnig hefur flutningskostnaður, sérstaklega frá austurlöndum fjær, lækkað afar mikið undanfarna mánuði.

Orka, rafmagn og gas, hefur einnig lækkað mikið í verði frá ofsafengnum hækkunum á síðasta ári í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu. Á síðasta ári var orkukostnaðurinn í Litháen, þar sem mest er notað af orku innan samstæðunnar, um þrefalt hærri en árið 2021. Nú virðist sem að orkukostnaðurinn í ár, einnig miðað við árið 2021, verði um einungis um 26% hærri svo ætla má að orkukostnaðurinn í Litháen verði um 1,6 m€ lægri í ár miðað við síðasta ár.

Í Norðskála í Færeyjum hefur verið unnið að byggingu aðstöðu til litunar á fiskeldiskvíanetum og uppsetningu á tækjabúnaði til að bera gróðurvarnarefni í netin og mun sú aðstaða verða tilbúin á haustmánuðum. Í Skagen á Jótlandi í Danmörku er verið að byrja á byggingu netaverkstæðis sem leysir af hólmi eldra netaverkstæði í Skagen sem hentar ekki lengur. Veiðarfæri hafa breyst mikið undanfarna áratugi samhliða því að uppsjávarveiðiskipafloti Danmerkur og Svíþjóðar hefur bæði stækkað og skipin orðin mikið öflugri en áður og veiðarfærin eru því einnig orðin stærri og þyngri. Byggingin verður um 4.850 fermetrar að stærð og vandlega búin þeim tækjabúnaði sem völ er á til létta vinnuna og auka afköst. Vonast er til að verkstæðið verði tilbúið til notkunar síðla næsta sumar.

Eftir því sem best verður séð þá eru rekstrarhorfur ágætar næstu mánuði og verkefnastaða almennt góð hjá fyrirtækjum innan samstæðunnar. Mikil landfræðileg dreifing ásamt fjölbreyttu vöruúrvali jafnar út sveiflur innan samstæðunnar því þótt sala dragist saman á einum stað vegna staðbundinna aðstæðna þá hefur það gjarnan verið vegið upp af meiri veiðum eða vaxandi fiskeldi á öðrum svæðum.

Vaxtabyrði hefur verið að þyngjast um allan heim en Hampiðjan býr að hæfilegri skuldsetningu ásamt því að hluti af nýju hlutafé, sem bíður eftir að vera notað í stækkun á afkastagetunni í Litháen, vegur á móti vaxtabyrði lána samstæðunnar.

Ákaft er unnið að hagræðingaraðgerðum í kjölfar kaupanna á Mørenot í byrjun ársins og eins og fyrr sagði þá hefur það gengið vel. Það mun taka nokkur ár að ná fram allri þeirri samlegð sem kaupin gefa möguleika á því sum hagræðingar- og uppbyggingarverkefni taka töluverðan tíma en byrjunin lofar góðu“.

Fjárhagsdagatal

Uppgjör 3F 2023 – 23. nóvember 2023
Ársuppgjör fyrir árið 2023 - 7. mars 2024

Nánari upplýsingar

Frekari upplýsingar veitir Hjörtur Erlendsson forstjóri í síma 664 3361.


Hampijan hf. samandreginn arshlutareikningur samstu 30. juni 2023.pdf
Hampijan - Lykiltolur 30. juni 2023.pdf

Please fill in the below details in order to view the requested content.