Gerast áskrifandi

Index: 0

Mikið að gera í nótaviðgerðum hjá Hampiðjunni

16.03.2015

Mikið að gera í nótaviðgerðum hjá Hampiðjunni

,,Munurinn nú í samanburði við fyrri ár er sá helstur að veðrið hefur verið miklu verra og sjólag erfiðara. Skipin eru orðin stærri, veiða í verra veðri en áður og ekki bætir úr skák sá skammi tími sem menn hafa til stefnu þegar það hillir undir lok loðnuvertíðarinnar.“

Þetta segir Vernharður Hafliðason, yfirverkstjóri hjá Hampiðjunni, en mikið hefur verið að gera hjá starfsmönnum við nótaviðgerðir að undanförnu. Vernharður segir það ekkert nýtt að mikið sé að gera á þessum árstíma þótt álagið nú hafi vissulega verið meira en áður.

Vernharð-23.9.

,,Menn rífa, festa í botni og fá í skrúfuna og ef skemmdirnar eru óverulegar þá bjarga þeir sér yfirleitt sjálfir. Í hinum tilvikunum er leitað til okkar. Oftast fáum við næturnar til okkar en við sendum líka menn á staðinn. Í vetur höfum við sent menn til að gera við nætur í Helguvík, á Vopnafjörð og á Akranes,“ sagði Vernharður en þess má geta að í dag er verið að gera við nótina hjá grænlenska skipinu Tasilaq sem rifnaði í brælunni í gærkvöldi.

Að sögn Vernharðs er mesta hættan á að loðnunæturnar rifni þegar skipin eru komin með þær upp að síðunni.

,,Algengast er að pokarnir eða pokaendarnir gefi sig þegar sjólagið er með þeim hætti sem verið hefur undanfarnar vikur og mánuði. Það er stöðug kvika og vont veður og átökin eru í samræmi við það. Köstin þurfa ekki að vera stór til að eitthvað gefi sig,“ segir Vernharður Hafliðason en þess má geta að um helmingur  af  20 manna starfsliði á netaverkstæði Hampiðjunnar á Skarfabakka í Reykjavík, vinnur nú við nótaviðgerðir. Mikil áhersla er lögð á fljóta og góða þjónustu við flotann og á það jafnt við um viðgerðir á nótum og togveiðarfærum sem yfirleitt eru afgreidd til og frá verkstæðinu, beint um borð i  veiðiskipin.

Í dag eru engin skip á loðnuveiðum út af Breiðafirði vegna brælu. Mörg eru í vari og þess er beðið að veðrið gangi niður en það gæti orðið þegar líða tekur á daginn. Mjög góð veiði hefur verið þá daga sem gefið hefur til veiða og ástandið á loðnunni úr vestangöngunni er gott. Aðallega hefur verið veitt úr tveimur stórum torfum eða flekkjum og bíða menn þess í ofvæni að komast aftur til veiða. Veðurútlit er gott fyrir næstu tvo dagana og verða það að teljast tíðindi miðað við tíðarfarið undanfarnar vikur og mánuði.

Please fill in the below details in order to view the requested content.