Gerast áskrifandi

Index: 0

Velheppnuð hópferð Hampiðjunnar í tilraunatankinn í Hirtshals

20.12.2013

Velheppnuð hópferð Hampiðjunnar í tilraunatankinn í Hirtshals
Fastur liður í starfsemi Hampiðjunnar er árleg ferð með viðskiptavinum og fulltrúum útgerðarfélaga í tilraunatankinn í Hirtshals í Danmörku. Þar eru kynntar nýjungar í veiðarfæragerð auk þess sem fulltrúar framleiðenda veiðarfæra kynna framleiðsluvörur sínar. Að þessu sinni var ferðin farin í byrjun þessa mánaðar og voru þátttakendur tæplega 70 talsins. Auk Íslendinga voru fulltrúar útgerðarfélaga frá Færeyjum, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku, Litháen, Spáni, Rússlandi, Hollandi og Bandaríkjunum mættir til leiks.

 

Haraldur-A´rnasonBreytt

Að sögn Haraldar Árnasonar, framkvæmdastjóra veiðarfæra hjá Hampiðjunni, heppnaðist ferðin vel eins og svo oft áður. Þetta væri kjörið tækifæri fyrir Hampiðjumenn að hitta viðskiptavini sína og oftar en ekki stuðluðu þessar ferðir að nýsköpun eða breytingum á veiðarfærum.
,,Að þessu sinni voru haldnir fyrirlestar um nýjungar í veiðarfæragerð og efnum, sem notuð eru í veiðarfæri, hvers væri að vænta á komandi ári. Fulltrúi frá DSM í Hollandi, sem er framleiðandi Dyneema þráðanna, sem notaðir eru í DynIce ofurkaðla Hampiðjunnar, var með fyrirlestur um fyrirtækið og framtíð ofurefna í sjávarútvegi. Talsmaður Thyboron hleraframleiðandans frá Thyboron í Danmörku var einnig með fyrirlestur og gerði góða grein fyrir nýjungum fyrirtækisins í toghleragerð. Þá var fulltrúi Simrad frá Noregi með góðan fyrirlestur um nýjungar fyrirtækisins á sviði fiskleitartækni,“ segir Haraldur en af nýjungum í veiðarfæragerð nefnir hann einkum nýja gerð makríltrolls, notkun flottrollshlera á botntrollsveiðum og þróun DynIce togtauganna. 
,,Nýja makríltrollið vakti áhuga margra sem og nýjungar í gerð botntrolla.  ,, Nýlegur  hlerabúnaður “ á flottrollshlera við botntroll vakti verðskuldaða athygli. Þessi aðferð er að ryðja sér til rúms víðs vegar um heim með aukinni veiðihæfni og sparnaði í olíukostnaði.  Notkun á DynIce togtaugum við slíkan,,hlerbúnað“ vakti einnig athygli. Notendur DynIce togtauga eru nú að nálgast tíunda tuginn og það er samdóma álit þeirra að kostir ofurkaðlanna umfram hefðbundna togvíra séu ótvíræðir. Við sýndum einnig fram á muninn á notkun á Nylex kaðli og Helix þankaðli í flottrollum og þar kom vel í ljós hve öflugur Helix þankaðallinn er. Þessi samanburður varð tilefni mikilla umræðna í hópi þátttakenda en við tejum okkur hafa veðjað á réttan hest, því um 80% allra flottrolla Hampiðjunnar í dag eru framleidd úr Helix þankaðli,“ segir Haraldur sem að lokum vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem tóku þátt í ferðinni.
,,Það er nú einu sinni þannig að þessar ferðir þjappa mönnum saman og í þeim verða oft til góðar hugmyndir. Þarna eru samankomnir skipstjórnarmenn, sem hafa talast við á stöðinni eða í síma í mörg ár, og sjá loksins andlitið á bak við röddina. Við, tankfarar frá Hampiðjunni, viljum nota tækifærið og þakka gestum okkar kærlega fyrir góð kynni og skemmtilega samveru þessa daga í Hirtshals,“ sagði Haraldur Árnason.


EinarBjargmCrop
Níunda ferðin með skipstjórnarmenn í tilraunatankinn
Einar Bjargmundsson hjá skipaþjónustu HB Granda er enginn nýgræðingur þegar veiðarfæri eru annars vegar enda ber hann ábyrgð á þeim málaflokki innan félagsins. Einar var meðal þátttakenda í ferðinni til Hirtshals en þetta er í níunda skiptið sem hann fer utan með skipstjórnarmönnum og útgerðarstjórum HB Granda til Hirtshals. Einar segir ferðina að vanda hafa verið áhugaverða.
,,Meðal þess sem við skoðuðum er lítið flottroll sem Ottó N Þorláksson RE mun líklegast taka um borð í lok janúarmánaðar nk. en við erum að vona að það troll geti mögulega skilað okkur stærri ufsa, auk þess sem það gæti komið að góðum notum á karfaveiðum þegar karfinn er ofar í sjónum. Trollið virðist koma mjög vel út og skipstjórinn er a.m.k. mjög spenntur fyrir því,“ segir Einar.
Að hans sögn hafa verið gerðar tilraunir um borð í Sturlaugi H. Böðvarssyni AK með svokallaðan fjögurra byrða poka með í  155 mm, T90 möskva, frá Hampiðjunni. Hefur Eiríkur Jónsson skipstjóri tekið þátt í þeirri þróun.
,,Hugsunin á bak við þann poka að fá betri og stærri fisk og þurfa ekki að nota smáfiskaskilju sem fer illa með aflann. Ég hef átt mikið og gott samstarf við Hampiðjumenn og starfsmenn Hafrannsóknarstofnunar í þessu verkefni. Pokinn var reyndur í tilraunatanknum og þar gátum við gert breytingar sem koma okkur örugglega til góða. Ég vonast til að endanleg niðurstaða hvað útfærsluna varðar liggi fyrir, ekki síðar en í febrúar nk. Ef við fáum þá niðurstöðu, sem við vonumst eftir, þá er ekkert því til fyrirstöðu að láta útbúa svoleiðis poka fyrir togara HB Granda.“
Einar segir að menn horfi einnig til nýja makríltrollsins, Gloría 1760 metra Super Wide makríl breiðvörpu  , en breidd á milli vængenda á því trolli sé 215 metrar. Eldri gerðin, sem togarar HB Granda nota í dag, er með  160 metra breidd.
,,Það er sama hæð á þessu nýja trolli og þeim sem við erum að nota í dag og vonir okkar standa til að með aukinni breidd sé sé hægt að tryggja hreinni makrílafla,“ segir Einar Bjargmundsson.

Please fill in the below details in order to view the requested content.