Gerast áskrifandi

Index: 0

Fjarstýrðir Thyborøn toghlerar um borð í nýjan Hákon ÞH 250

15.02.2024

Nýlega var staðfest pöntun á Thyborøn fullfjarstýrðum toghlerum fyrir útgerðarfélagið Gjögur sem gerir út skipið Hákon ÞH 250. Gjögur er með nýjan Hákon í smíðum hjá Karstensen Skibsværft A/S á Skagen í Danmörku og verður hann afhentur um mitt ár 2024.

Hlerarnir sem um ræðir eru týpa 42, 12,0 m2 og 4.700 kg. Þeir eru fyrstu fullfjarstýrðu hlerarnir sem seldir eru frá Thyborøn á íslenskt skip en frá árinu 2017 hefur Thyborøn boðið upp á hlera með lúgum sem má opna og loka með glussatjakki og hægt er að breyta þegar hlerarnir koma upp aftan á skipinu.

Með tilkomu týpu 32, og nú nýlega týpu 42 af Bluestream hlerunum, hefur verið bætt við búnaði eins og lithium rafhlöðu, dýptarnema og mótorstýringu ásamt tveimur botnstykkjum sem sett eru á kjöl skipsins. Þetta gerir það kleift að stýra og breyta virkni hlerana úr brúnni meðan á veiðum stendur.

Allur búnaðurinn á hlerunum, ásamt hugbúnaði í brúnni, er hannaður og framleiddur af Thyborøn fyrir utan rafhlöðuna sjálfa. Lithium rafhlaðan sem um ræðir hefur allt að 40 klukkustunda vinnutíma án þess að hlaða þurfi hana þrátt fyrir að hlerinn sé í stöðugri notkun. Um tvær klukkustundir tekur að hlaða rafhlöðuna aftur upp í 80% hleðslu og um þrjá tíma í 100% hleðslu.

Thyborøn hleranir eru sterkbyggðir og endingargóðir og allan stýribúnaðinn er hægt að endurnýta þegar kemur að því að endurnýja þurfi hlerana sjálfa. Í dag eru 12 skip að nota Thyborøn týpu 32 og þrjú skip að nota týpu 42 Bluestream en fjögur slík pör eru nú í smíðum.

Hampiðjan Ísland er umboðsaðili Thyborøn á Íslandi og sá um söluna á þessu hlerapari til útgerðarfélagsins Gjögurs.

Please fill in the below details in order to view the requested content.