Gerast áskrifandi

Index: 0

Hampiðjan innleiðir ISO 14001 umhverfisvottun

23.09.2021

Hampiðjan hefur undanfarin ár unnið markvisst að málum sem tengjast umhverfismálum og grunnurinn að þeirri vinnu hófst með mörkun umhverfisstefnu fyrir fyrirtækið.  Sú stefna var formlega samþykkt af stjórn Hampiðjunnar síðastliðið haust.

Einn liður í umhverfisstefnunni var að innleiða umhverfisvottunina ISO 14001 á Íslandi.  Þess má geta að framleiðslufyrirtæki Hampiðjunnar í Litháen hafa verið með vottun DNV frá árinu 2007 fyrir gæðastaðalinn ISO 9001, umhverfisstaðilinn ISO 14001 og öryggis- og vinnustjórnunarstaðalinn ISO OHSAS 18001. Umhverfisstaðalsvottunin hér á Íslandi er því kærkomin viðbót.

Samið var við iCert um milligöngu við DNV varðandi vottunina en iCert er samstarfsaðili DNV á Íslandi.  Helga Björg Loftsdóttir, sérfræðingur umhverfismála hjá Hampiðjunni, leiddi starfið með dyggri aðstoð Sigurðar M. Harðarsonar eins eigenda iCert.

Helga var ráðin til Hampiðjunnar í sumarstarf árið 2019 með það að markmiði  að leggja drög að umhverfisstefnu Hampiðjunnar. Hún hélt áfram með verkefnið  sem lokaverkefni í Háskólanum á Akureyri árið 2020 til BS gráðu í bæði Viðskipta- og sjávarútvegsfræði. Titill lokaverkefnis var ,,Drög að umhverfisstefnu Hampiðjunnar – Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og ávinningur af innleiðingu ISO 14001 vottunar.“  Að námi loknu var Helga ráðin sem sérfræðingur umhverfismála, en það er starf sem hafði ekki verið til áður hjá Hampiðjunni. Fyrsta skrefið var að vinna að mörkun umhverfisstefnu Hampiðjunnar og innleiða umhverfisstjórnunarkerfi.

Í sumar vann Helga að minnkun umhverfisáhrifa hjá Hampiðjunni ásamt því að reikna út heilstætt kolefnisspor fyrir starfsemina á Íslandi. Vilji var til að gera gott betur og innleiða ISO 14001 umhverfisvottun. Með þeirri innleiðingu er fylgt nýjum straumum í samfélaginu sem er stöðugt að verða meðvitaðra um umhverfismál. Í því felast mörg tækifæri sem nýst geta í sölu og markaðssetningu Hampiðjunnar bæði hér innanlands sem og erlendis í framtíðinni.

Eftir markvissa vinnu síðastliðna mánuði tók Helga Björg þann 15. september við ISO 14001 umhverfisvottuninni úr hendi Sigurðar.

Helga er nú farin til framhaldsnáms í London þar sem hún hyggst ljúka MS gráðu í fjármálum fyrirtækja og óskum við henni góðs gengis í náminu og því sem hún tekur sér fyrir hendur eftir þann áfanga.

Please fill in the below details in order to view the requested content.