Gerast áskrifandi

Index: 0

Hampiðjan með vottaðan lyftibúnað á Verk og vit

18.04.2024

Hampiðjan hefur alltaf verið með á Verk og vit sýningunni og í ár er engin undintekning á því. Auk starfsmanna frá Hampiðjunni verða fulltrúar frá Gunnebo og Riconnect á básnum.

„Á Verk og vit sýningunni erum við meðal annars að sýna vottaðan lyftibúnað frá sænska framleiðandanum Gunnebo,” segir Ólafur Björn Benónýsson, sölustjóri lyftibúnaðar hjá Hampiðjunni. Við munum samhliða kynna nýja og uppfærða útgáfu af Lyftibúnaðarhandbókinni sem er afar vegleg og í er að finna allan þann lyftibúnað sem við seljum ásamt leiðbeiningum um hvernig skuli standa að lyftum og annast búnaðinn.  Bókin verður fáanleg á básnum og hún er einnig komin á heimasíðuna okkar og þar er einnig vefsala sem er mjög aðgengileg. 

Hampiðjan selur ekki einungis lyftibúnað hér á landi en hún hefur á undanförnum árum og áratugum haslað sér völl í sölu lyftibúnaðar erlendis. Þar er um að ræða djúpsjávartóg og önnur sérhæfð tóg til að nota á spil, vindur og krana á skipum sem kortleggja hafsbotninn í rannsóknarskyni eða olíuleit. 

Þjónusta víðsvegar um landið

Hampiðjan er með víðtæka þjónustu við sveitarfélög, verktaka og aðra framkvæmdaaðila, með sölu á lyftibúnaði og öðrum tengdum búnaði. Ólafur segir að á öllum starfsstöðvunum sé hægt að kaupa helstu vörur og búnað til lyftinga, allt frá litlum lásum upp í flókinn lyftibúnað. „Við erum með mjög stóra vörulínu fyrir iðnað á Íslandi.” 

Til að þjónusta iðnaðinn enn frekar býður Hampiðjan víraþjónustu í Reykjavík, á Ísafirði, Akureyri, í Neskaupstað og Vestmannaeyjum. „Á öllum starfsstöðvum erum við með 600 tonna vírapressur og með algengustu víra á lager,” segir Ólafur.  Auk þess er einnig hægt að fá splæst augu á kaðla og niðurmældan vír með klemmdum augum. Hann segir verslunina í Reykjavík afar vel staðsetta. „Hún er í höfuðstöðvum okkar á Skarfabakka þar sem er gott aðgengi, jafnvel fyrir stóra vinnubíla og tæki.” 

Ólafur bendir á að mikilvægt sé að allur lyftibúnaður sé yfirfarinn reglulega af notendum búnaðarins og ávallt tryggt að hann sé i lagi, áður en hann er notaður. Auk daglegs eftirlits notanda lyftibúnaðar er mikilvægt að umsjón og eftirlit sé unnið á skipulegan hátt, af aðilum með faglega þekkingu og býður Hampiðjan fyrirtækjum alhliða þjónustu við umsjón, eftirlit og ráðgjöf við notkun á lyftibúnaði. Eftirlitinu sinnir starfsfólk Hampiðjunnar sem lokið hefur þjálfun í skoðun og vali á lyftibúnaði frá Gunnebo. 

„Sé þess óskað koma starfsmenn Hampiðjunnar á vinnustaðinn og skoða allan lyftibúnað i notkun. Þá sinnum við reglubundnu eftirliti, ásamt viðgerðum og viðhaldi á búnaði. Þetta á við um stroffur, lyftikeðjur, ásamt lásum og öðrum tengdum búnaði sem notaður er við lyftingar,” segir Ólafur. 

Stafrænar merkingar með lyftikeðjum

Það er líka mikilvægt að notandinn og aðrir sem koma að verkinu geti nálgast allar upplýsingar um lyftibúnaðinn og bendir Ólafur á að á allar lyftikeðjur séu festar YOKE merkiplötur med RFID flögu. „Þar er að finna upplysingar um búnaðinn, m.a. auðkenni eða raðnúmer, leyfilegt hámarksvinnuálag, CE merkingu auk vottorða framleiðanda og Hampiðju fyrir íhluti og samsetningu.” 

YOKE merkiplöturnar eru nýjasta gerðin af stafrænum merkingum (RFID). Þær eru með innbyggðri SupraNano flögu sem geymir allar nauðsynlegar upplýsingar um viðkomandi tæki eða búnað.

Ólafur segir að með RiConnect smáforriti, sem hlaða má niður endurgjaldslaust, geti notandinn, eftirlitsaðilar, viðskiptavinir eða aðrir nálgast upplýsingarnar með snjallsíma. Einnig má nota önnur NFC virk tæki eða hugbúnað frá öðrum framleiðendum. „Þetta gerir YOKE merkiplöturnar að einni aðgengilegustu lausninni i merkingum tækja og búnaðar í dag, og þá eru plöturnar sterkbyggðar og endingargóðar og fást m.a. i ryðfríu stáli, áli og plasti.”

Greinin birtist í sýningarblaði Verk og vit 2024.

Please fill in the below details in order to view the requested content.