Gerast áskrifandi

Index: 0

Jón Ásbjörn Grétarsson

12.01.2015

Jón Ásbjörn Grétarsson

Jón Ásbjörn Grétarsson fæddist 5. janúar 1965. Hann lést 17. desember 2014. Útför Jóns fór fram 5. janúar 2015.

Í dag kveðjum við Jón Ásbjörn Grétarsson, veiðarfærahönnuð og náinn samstarfsmann okkar í Hampiðjunni undanfarna áratugi. Jón Ásbjörn hóf störf í sumarbyrjun 1989 og átti því 25 ára starfsafmæli fyrr á þessu ári. Hann starfaði fyrst á netaverkstæðinu í Stakkholti og það var strax ljóst í byrjun að hann hafði góða þekkingu og tilfinningu fyrir veiðum og veiðarfæragerð enda alinn upp á Ísafirði þar sem allt snérist um fiskveiðar.

Jón var mikill áhugamaður um tölvur og hann hafði fylgst með þeirri þróun frá unga aldri og tileinkað sér þau forritunarmál sem helst voru notuð. Á þeim tíma sem hann hóf störf voru fyrstu tölvuteikningarnar af veiðarfærum að líta dagsins ljós og strax á sínum fyrstu vinnudögum sýndi hann og sannaði þekkingu sína og færni og tölvuteiknaði botn- og flotroll með lítilli fyrirhöfn. Hann varð því fljótt ómissandi sem teiknari og í framhaldi af því einn af aðalhönnuðum veiðarfæra Hampiðjunnar eftir því sem þekking hans á og tilfinning fyrir hegðun og virkni veiðarfæranna óx. Samhliða starfinu menntaði Jón sig í netagerð og lauk því námi 1993 og varð síðan meistari í greininni árið 1996. Það sýndi færni Jóns og hve framarlega hann stóð í tölvuteikningum trolla að þegar kom að þeirri námsgrein í netagerðarnáminu tók nemandinn við kennarastarfinu og kenndi samnemendum sínum og kennara hvernig best væri að teikna upp troll í tölvu.

Nám í veiðarfæragerð er að mörgu leyti einstakt því formlegt og viðurkennt nám er einungis til staðar í örfáum löndum og er Ísland eina landið við Atlantshaf sem býður upp á slíkt nám. Í ljósi þess hversu mikilvægur sjávarútvegur er fyrir þjóðina hefur þetta verið nauðsyn og tryggt stöðuga framþróun og hagkvæmni í veiðum ásamt því að tryggja forystu Íslands í veiðarfæragerð á heimsvísu.

Það er langt í frá svo að Jón hafi setið og hannað og teiknað troll alla daga því hann fór víða um heim til leysa úr vandamálum og aðstoða dótturfyrirtæki Hampiðjunnar og viðskiptavini við að bæta, breyta og aðlaga veiðarfærin aðstæðum á viðkomandi svæði. Þetta þýddi oft langdvalir úti á sjó og í fjarlægum löndum svo vikum og mánuðum skipti.
Í þessum ferðum kynntist Jón veiðarfærahönnun annarra þjóða og fékk innsýn í hvaða hugsun lá að baki þegar troll voru hönnuð fyrir ákveðnar fiskitegundir eða aðstæður. Það nýttist afar vel þegar hanna þurfti troll fyrir íslenska flotann fyrir veiðar á tegundum sem ekki var hefð fyrir að veiða hérlendis og má þar sérstaklega nefna makrílinn sem nú kemur upp að landinu á hverju ári og færir okkur björg í bú.

Jón Ásbjörn var afar hæverskur og rólyndur að eðlisfari og lét fátt trufla einbeitingu sína. Áratuga starf, áhugi og einbeiting gerði Jón að einum fremsta veiðarfærahönnuði trolla í heiminum og útfærslur hans munu verða notaðar áfram þótt hans njóti ekki lengur við.

Við vottum börnum Jóns, foreldrum og bróður innilega samúð vegna þeirra mikla missis og þökkum jafnframt framlag hans til vaxtar og framgangs Hampiðjunnar á undanförnum áratugum.
Hjörtur Erlendsson.


Hann kom inn á skrifstofuna hjá mér um miðjan maí 1989, viku eftir að hann hóf störf á netastofu Hampiðjunnar í Stakkholti, þessi granni, hávaxni, rauðhærði ungi maður með gleraugun og spurði hvort teikning af nýju úthafskarfaflottrolli, sem hann var að vinna við, væri tölvuteiknuð. Þegar hann heyrði að svo væri bað hann um tilheyrandi teikniforrit að láni sem var auðsótt mál af minni hálfu. Tveimur dögum seinna mætti hann aftur á skrifstofuna með fullbúna teikningu af samskonar veiðarfæri með öllum útskýringum sem við áttu og þetta veiðarfæri fékk seinna nafnið Gloría. Þetta kom mér virkilega á óvart, því það voru ekki margir hérlendis með kunnáttu í tölvuteiknun veiðarfæra og raunar hægt að telja þá á fingrum annarrar handar á þessum tíma.

Með þessu hófst farsælt samstarf okkar í hönnun og þróun veiðarfæra sem leiddi til afburða togveiðarfæra frá Hampiðjunni sem í dag eru notuð af togskipum til fiskveiða í nánast öllum heimshöfum. Það leið ekki á löngu þar til Jón hannaði eigið tölvuteikniforrit þar sem hann virkjaði eiginleika Excel- og AutoCad-forritanna þannig að útkoman varð sú að allir þættir veiðarfærisins komu fram á skýran og einfaldan máta. Jón þróaði einnig toggetuforrit í samstarfi við Emil Ragnarsson, skipaverkfræðing hjá Fiskifélagi Íslands, sem hafði mikla þýðingu í því að meta hvaða stærð af veiðarfæri hentaði veiðiskipum með tilliti til toggetu þeirra. Undanfarin ár hefur Jón í samstarfi við Háskóla Íslands sett upp trollhermi sem gerir það mögulegt að herma eftir því hvernig veiðarfærið er í notkun og líkja þar með eftir öllum þeim kröftum í hafinu sem virka á veiðarfæri. Jón dvaldi langdvölum erlendis fyrir Hampiðjuna við veiðarfæraþróun og menntun starfsmanna Hampiðjunnar. Þá fór Jón ótal ferðir með veiðiskipum víðsvegar um heiminn þar sem hann aðstoðaði áhafnir skipa við að taka ný veiðarfæri frá Hampiðjunni í notkun. Jón var afburðamaður á sínu sviði í veiðarfærahönnun og þróun og ekki margir í dag sem stóðu honum á sporði á þessu sviði.

Jón var gæddur þeim eiginleika að geta einbeitt sér að því verkefni sem honum var falið hverju sinni af æðruleysi, rökhugsun og rósemi sem fáum er gefið. Hann settist niður við tölvuna og kom síðan með lausnina til baka á þeim tíma sem hann þurfti til að leysa verkefnin sem yfirleitt voru þannig að lausnin þurfti að koma, ekki í dag, ekki í gær, heldur í fyrradag. Þarna fór alveg sérstakur maður með hæfileika sem fáum er gefinn. Ef Jón hefði fengið að lifa lengur held ég að hann hefði örugglega komið með frumlegar nýjungar í veiðarfærum sem hefðu orðið að veruleika í framtíðinni. Guð blessi minningu þessa frábæra vinar og vinnufélaga sem var mér svo kær. Vottum börnum Jóns innilega samúð okkar, jafnt sem foreldrum og bróður við fráfall góðs drengs sem lét yfirleitt lítið fyrir sér fara og kvartaði aldrei, ekki einu sinni í sínum erfiðu veikindum sem drógu hann að lokum til dauða.
Guðmundur Gunnarsson.

Please fill in the below details in order to view the requested content.