Gerast áskrifandi

Index: 0

Vel heppnuð sjávarútvegssýning í Brussel 2016

19.05.2016

Að undanförnu hafa starfsmenn Hampiðjunnar unnið úr þeim viðbrögðum sem framleiðsluvörur fyrirtækisins fengu á sjávar-útvegssýningunni í Brussel í Belgíu dagana 26. til 28. apríl 2016.
Að sögn Haraldar Árnasonar, sölu og markaðsstjóra veiðarfæra hjá Hampiðjunni, var sýningin góð og þátttakan skilaði fyllilega því sem að var stefnt.

„Þetta er ein stærsta sjávarútvegssýning í Evrópu sem haldin er ár hvert. Íslandsstofa hafði veg og vanda af þátttökunni og kynnti nýjan þjóðarbás sem var mjög vel heppnaður en hann var mikið breyttur frá árum áður og hefur fengið nýtt yfirbragð.

Nýju Gloríu Helix makríltrollin 2288m og 2816m, nýju Flipper hlerarnir frá Thyborøn í Danmörku og DynIce togtaugarnar vöktu mesta athygli á sýningunni af framleiðsluvörum Hampiðjuhópsins. Sömuleiðis kynntum við vel þjónustunet okkar, sem fer ört stækkandi. Rækjutrollin frá dótturfélaginu Cosmos Trawl vöktu áhuga margra gesta en þau hafa algjörlega slegið í gegn á síðustu árum og er stór hluti rækjuflotans í NorðurAtlantshafi kominn með hin nýju og aflasælu rækjutroll fyrirtækisins.

Rússneskir útgerðarmenn voru áberandi á sýningunni og er mikill hugur í þeim að yngja upp skipaflotann. Hampiðjan hefur átt farsæl viðskipti við þarlendar útgerðir um árabil og er sala þangað alltaf að aukast. Rússar vilja góð veiðarfæri og hafa verið afar ánægðir með vörur og þjónustu Hampiðjunnar.

Þrátt fyrir færri sýningargesti vegna hryðjuverkaárásanna fyrr á árinu náðum við þó að hitta alla þá viðskiptavini sem við þurftum að eiga samtal við og auk þess er alltaf nokkuð um að nýir aðilar setji sig í samband við okkur,“ segir Haraldur Árnason.

Hampiðjan var að þessu sinni með 15 fermetra sýningarbás á sýningunni í Brussel og á honum voru voru 4 starfsmenn, þeir Haraldur Árnason og Guðbjartur Þórarinsson frá móðurfélaginu ásamt Sergey Karpliuk frá Hampiðjunni í Rússlandi og Thorleif Grønkjær frá Cosmos Trawl í Danmörku.

,,Við viljum nota tækifærið og þakka öllum þeim sem heimsóttu okkur fyrir góðar viðtökur á sýningarbás okkar í Brussel,“ segir Haraldur Árnason.

Please fill in the below details in order to view the requested content.